Aðstoðarkennari eftirlýstur fyrir morð

Narumi Kurosaki.
Narumi Kurosaki. AFP

Frönsk yfirvöld hafa gefið út handtökuskipun á hendur Chilebúa sem er grunaður um að hafa myrt japanskan námsmann í Frakklandi í síðasta mánuði.

Narumi Kurosaki, 21 árs, var að nema frönsku við háskólann í Besançon þegar hún hvarf að kvöldi 4. desember. Lík hennar hefur ekki enn fundist en talið er að fyrrverandi unnusti hennar, sem er  frá Chile, hafi myrt hana og flúið síðan til heimalandsins.

Á blaðamannafundi í gær sagði Edwige Roux-Morizot, saksóknari í Besançon, að rannsóknin hafi leitt í ljós að hann var í Frakklandi þegar Kurosaki hvarf. Búið sé að útiloka að hún hafi framið sjálfsvíg en hún hafi verið ung kona full af lífi og mjög hamingjusöm í nýju ástarsambandi. 

„Það er fyllsta ástæða til þess að hefja morðrannsókn,“ sagði Roux-Morizot er hún ræddi við fréttamenn í gær.  Nokkrir námsmenn sem búa á sömu hæð og Narumi á stúdentagörðum háskólans heyrðu háreisti þessa nótt en síðan hefur hvorki fundist tangur né tetur af Narumi. 

Anne-Laure Saillet, tvítugur námsmaður, segist hafa heyrt hávaða og síðan hávært óp. Hún segir að í fyrstu hafi hún talið að einhver væri að horfa á hryllingsmynd en svo hafi hún orðið áhyggjufull.

Roux-Morizot segir að verið sé að rannsaka rauðleita bletti á hurðarstaf sem jafnvel er talið að séu blóðblettir. 

Maðurinn sem er leitað var aðstoðarkennari við skólann en þau Kurosaki kynntust í Japan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert