Birta gögn um FFH og dulrænar tilraunir

Miðillinn Uri Geller endurskapaði teikningar sem verið var að teikna …
Miðillinn Uri Geller endurskapaði teikningar sem verið var að teikna í öðru herbergi, stundum af ótrúlegri nákvæmni. Teikning/CIA

Bandaríska leyniþjónustan hefur birt 800.000 skýrslur, samtals 13 milljón blaðsíður, en meðal gagnanna sem um ræðir eru rannsóknarskýrslur og upplýsingar um fljúgandi furðuhluti, FFH, og dulrænar tilraunir.

Birtingin er niðurstaða baráttu aðgerðasinna sem berjast fyrir auknu aðgengi að opinberum gögnum og lögsóknar á hendur CIA, bandarísku leyniþjónustunni.

Í gagnafarginu er m.a. að finna skjalasafn Henry Kissinger, sem var utanríkisráðherra í forsetatíð Richard Nixon og Gerald Ford.

Meðal óvenjulegri gagna má nefna skjöl tengd hinni svokölluðu Stargate-áætlun, þar sem verið var að rannsaka hið yfirskilvitlega. Þar má m.a. nefna tilraunir á miðlinum Uri Geller, sem voru gerðar árið 1973, eftir að hann varð frægur.

Samkvæmt gögnunum tókst Geller, stundum af ótrúlegri nákvæmni, að endurgera myndir sem verið var að teikna í öðru herbergi.

Í gögnunum er einnig að finna tilkynningar um fljúgandi furðuhluti og uppskriftir að ósýnilegu bleki.

Flest gögnin hafa verið aðgengileg frá því fyrir aldamót en aðeins á fjórum tölvum á þjóðskjalasafninu í Maryland, á milli kl. 9 og 16.30.

Upplýsingabaráttuhópurinn MuckRock höfðaði mál á hendur CIA og fór fram á að gögnin yrðu sett á netið, og þá safnaði blaðamaðurinn Mike Best meira en 15.000 dölum til að heimsækja skjalasafnið og prenta gögnin út og setja á netið, eitt í einu.

BBC sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert