Boða „þjóðræknisvor“ í Evrópu

Þjóðernissinnar safnast saman í Koblenz í Þýskalandi.
Þjóðernissinnar safnast saman í Koblenz í Þýskalandi. AFP

Marine Le Pen, leiðtogi og forsetaefni frönsku Þjóðfylkingarinnar, ávarpaði þjóðernissinna í Þýskalandi í dag og sagði röð mikilvægra kosninga myndu blása vindum breytinga um Evrópu árið 2017.

Le Pen sagði að kjósendur í Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi myndu draga innblástur frá þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um úrsögn úr Evrópusambandinu og kosningasigri Donald Trump vestanhafs og verða næstir í röðinni til að hafna núverandi stöðu.

„2016 var árið sem hinn engilsaxneski heimur vaknaði upp. Ég er þess fullviss að árið 2017 munu íbúar meginlands Evrópu vakna upp,“ sagði Le Pen þegar hún ávarpaði um 800 manns við mikinn fögnuð í borginni Koblenz.

„Þetta er ekki lengur spurning um ef, heldur hvenær.“

Le Pen fór mikinn í ræðunni og talaði m.a. gegn evrunni, fólksflutningum og opnum landamærum.

Viðburðurinn var í tengslum við ráðstefnu sem nú fer fram í Koblenz en meðal annarra þátttakenda eru Frauke Petry, leiðtogi Annars kosts fyrir Þýskaland, Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins hollenska, Harald Vilimsky, leiðtogi Frelsisflokksins í Austurríki, og Matteo Salvini, leiðtogi ítölsku Norðurhreyfingarinnar.

Ráðstefnan er haldin á hæla embættistöku Trump, sem hét því í innsetningarræðu sinni að setja Bandaríkin „í fyrsta sæti“.

„Í gær, ný Bandaríki, í dag Koblenz og á morgun ný Evrópa,“ sagði Wilders. „Við mörkum upphaf þjóðræknisvors í Evrópu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert