Forsetinn sakaður um lygar

Mótmælendur fyrir utan Hvíta húsið í Washington um helgina þegar …
Mótmælendur fyrir utan Hvíta húsið í Washington um helgina þegar um 2,6 milljónirmanna tóku þátt í göngu kvenna gegn nýja forsetanum í höfuðborginni og fleiri borgum í Bandaríkjunum. AFP

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum saka Donald Trump og talsmenn hans um lygar vegna fullyrðinga þeirra um mannfjöldann sem safnaðist saman við Hvíta húsið á föstudaginn var til að fylgjast með því þegar hann tók við embætti forseta. Fjölmiðlarnir spyrja hvernig hægt sé að treysta fullyrðingum Trumps og embættismanna hans í mikilvægum málefnum á borð við þjóðaröryggi úr því að þeir fóru með ósannindi um mál sem hefur miklu minni þýðingu fyrir almenning.

Fjölmiðlarnir höfðu skýrt frá því að mannfjöldinn við Hvíta húsið var miklu minni þegar Trump sór embættiseiðinn en fyrir átta árum þegar Barack Obama varð forseti. Trump sagði þetta rangt og kvaðst telja að milljón til ein og hálf milljón manna hefði verið á staðnum. Hann gagnrýndi fréttamenn fyrir að halda öðru fram og sagði að þeir væru á „meðal óheiðarlegustu mannvera á jörðinni“.

Mjög hörundsár forseti

Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi forsetans, veittist einnig að fjölmiðlunum á fyrsta blaðamannafundi sínum og sagði þá hafa birt rangar upplýsingar um mannfjöldann af ásettu ráði. „Þetta var stærsti áhorfendaskari við embættistöku frá upphafi, punktur!“ sagði hann.

Bandarískir fjölmiðlar segja þessar fullyrðingar rangar, þeirra á meðal dagblaðið The Wall Street Journal, sem hefur verið hliðhollt Repúblikanaflokknum.

Kellyanne Conway, ráðgjafi Trumps í Hvíta húsinu, sagði seinna í viðtali við NBC-sjónvarpið að fullyrðingar Spicers á blaðamannafundinum væru ekki rangar en vék sér undan því að segja að þær væru réttar. Hún kallaði þær „aðrar mögulegar staðreyndir“ (e. alternative facts). Sjónvarpsmaðurinn Chuck Todd, sem tók viðtalið, sagði þetta vera nýtt orðalag um „ósannindi“.

Útvarpsmaðurinn og dálkahöfundurinn Dean Obeidallah tekur í sama streng í grein á fréttavef CNN. Hann segir hörð viðbrögð forsetans við fréttum um mannfjöldann vera til marks um að hann sé mjög hörundsár og heltekinn af þeirri hugsun að hann sé mestur og bestur.

Nær 200 ósannar fullyrðingar

Obeidallah segir það ekki koma á óvart að Trump og talsmenn hans fari á snið við sannleikann því að nær 200 fullyrðingar hans í kosningabaráttunni hafi reynst vera ósannar. „Hvernig getum við treyst upplýsingunum sem þeir birta ef Trump og embættismenn hans halda áfram að ljúga að okkur?“ spyr Obeidallah. „Hvernig getum við treyst yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um mál á borð við fjölda atvinnulausra, hagvöxt og fjölda þeirra sem skráðir eru í sjúkratryggingakerfi Obama? Og það sem er enn mikilvægara: hvernig getum við treyst því sem embættismenn Trumps segja um þjóðaröryggismál? Hvernig getum við trúað þeim þegar embættismenn Trumps segja okkur að þeir viti hverjir frömdu hryðjuverk eða fullyrða að þeir hafi upprætt hryðjuverkastarfsemi?“

Margaret Sullivan, fjölmiðlarýnir The Washington Post, tekur í sama streng og segir að fjölmiðlamenn geti ekki lengur treyst upplýsingum fjölmiðlafulltrúans í Hvíta húsinu eftir að Trump hafi sagt honum að fara með lygar. Hann hafi gengið af „hefðbundnum fréttaflutningi af blaðamannafundum fjölmiðlafulltrúans dauðum“. Fjölmiðlamenn þurfi að fara ofan í saumana á upplýsingunum frá Hvíta húsinu, með sannleikann og sanngirni að leiðarljósi, og vera tilbúnir að afhjúpa ósannindi þegar embættismennirnir verði berir að þeim.

Reince Priebus, nýr skrifstofustjóri Hvíta hússins, sagði í viðtali við Fox News að málið snerist í raun ekki um fjölda áhorfendanna, heldur um „árásir“ fjölmiðla og tilburði þeirra til að vefengja að Trump væri lögmætur forseti Bandaríkjanna. Trump og embættismenn hans ætluðu ekki að láta slíkar „árásir“ yfir sig ganga án þess að svara fyrir sig.

Trump og talsmenn hans virðast vera viðkvæmir fyrir þeirri staðreynd að Hillary Clinton, forsetaefni demókrata, fékk rúmlega tveggja prósentustiga meira fylgi en Trump í forsetakosningunum og hann nýtur minni stuðnings en nokkur annar forseti í Bandaríkjunum síðustu áratugi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert