Ljón og tígrisdýr eignuðust afkvæmi

Keisarinn er tveggja mánaða.
Keisarinn er tveggja mánaða. AFP

Afar sjaldgæft afkvæmi tígrisdýrs og ljóns hefur fæðst í ferðadýragarði í Suður-Rússlandi. Aðeins nokkrir tugir slíkra dýra eru taldir vera til í heiminum.

Þegar faðir slíks afkvæmis er ljón, og móðirin tígrisdýr, nefnist afkvæmið liger á ensku, sem þannig gæti útlagst sem lígur á íslensku.

Lígursunginn, sem er tveggja mánaða, hefur verið nefndur Tsar, eða Keisari. Móðir hans mun þá heita Prinsessa og faðirinn Sesar, samkvæmt því sem AFP hefur eftir forstöðumanni dýragarðsins.

Unginn hefur ljósan feld ljóns en rendur tígrisdýrs, og nærist á mjólk úr einni geita dýragarðsins.

Vegna gena sinna geta lígrar orðið stærstir allra kattardýra, og vegið meira en 400 kíló.

Lígur í Bandaríkjunum, sem nefnist Herkúles, er samkvæmt heimsmetabók Guinness stærsta kattardýr í heiminum. Vegur hann 418 kíló og er 3,33 metrar að lengd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert