Þýfið mun verðmætara en áður var talið

Ránið var framið í hvelfingu í byggingu í Hatton Garden.
Ránið var framið í hvelfingu í byggingu í Hatton Garden. AFP

Fangelsisdómar yfir höfuðpaurunum í hinu djarfa skartgriparáni í Hatton Garden í London gætu lengst verulega eftir að í ljós kom að verðmæti þýfisins er helmingi meira en í fyrstu var talið.

Ránið var ráðgata lengi vel en það var framið yfir páskana fyrir tæpum tveimur árum. Í hvelfingum Hatton Garden eru gríðarleg verðmæti geymd, m.a. djásn skartgripasala Lundúnaborgar. Það sem vakti ekki síður mikla athygli var úthugsuð skipulagning ránsins í öryggishólf sem átti varla að vera mögulegt að brjótast inn í.

Í fyrstu var þýfið metið á um 14 milljónir punda, um tvo milljarða íslenskra króna. En nú hefur annað komið upp úr kafinu og þýfið sagt hafa verið rúmlega fjögurra milljarða króna virði. Þetta kom í ljós í vitnaleiðslum hjá dómara í dag. 

Lögmaður eins sakborningsins í málinu segir að þýfi sem metið er á um 580 milljónir króna hafi þegar verið skilað. 

Muni þjófagengið, sem telur fimm karlmenn, ekki getað skilað þessum verðmætum til baka á það yfir höfði sér lengri fangelsisvist en áður hefur verið talið.

Í frétt Sky-fréttastofunnar kemur fram að fyrr í þessum mánuði hafi kona gefið sig fram og sagt frá því að gulli í hennar eigu, að verðmæti um 1 milljarð króna, hafi verið stolið í innbrotinu. Þetta hafði hún ekki uppgötvað fyrr en tæpum tveimur árum eftir ránið. 

Þjófarnir 60-78 ára

Fimmmenningarnir voru handteknir nokkrum vikum eftir ránið og játuðu aðild sína að því. Dómur hefur þegar verið kveðinn upp. Þeir eru á aldrinum 60-78 ára. Fjórir fengu sjö ára fangelsisdóm og einn fékk sex ára dóm. 

Sjötti maðurinn, sem er 48 ára, fékk 21 mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir aðild sína en hann leyfði genginu að flytja töskur með þýfinu um verkstæði sitt.

Þjófarnir létu greipar sópa í 73 öryggishólfum. Þeir höfðu notað steinbor til að brjótast inn í gegnum þykkan vegg hvelfingarinnar. Þeir stálu m.a. gulli, demöntum og öðrum gimsteinum. 

Ránið er það stærsta í sögu Englands, segir í frétt Sky.

Nú er verið að reyna að hafa uppi á þýfinu og verður dómsmál um eignaupptöku sérstaklega tekið fyrir í janúar á næsta ári. Finnist skargripirnir ekki, eða geti fimmmenningarnir ekki framvísað fé, munu þeir að öllum líkindum fá þyngri dóma, allt upp í fjórtán ár á bak við lás og slá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert