Segist virða „morðingjann“ Pútín

Trump ræðir við blaðamenn um borð í forsetaflugvélinni 3. febrúar.
Trump ræðir við blaðamenn um borð í forsetaflugvélinni 3. febrúar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hafnar því að herða afstöðu Bandaríkjanna gegn Rússlandi og gerir lítið úr pólitískum aftökum þar í landi og innrás þarlendra stjórnvalda í Úkraínu.

„Ég virði hann,“ sagði Trump um Vladimir Pútín Rússlandsforseta í viðtali við Bill O'Reilly, sem sýnt verður í tengslum við Ofurskálina í kvöld. „Ja, ég virði margt fólk en það þýðir ekki að okkur komi saman.“

Spurður um meinta aðkomu Pútín að morðum á blaðamönnum og stjórnarandstæðingum svaraði Trump: „Það eru margir morðingjar. Við höfum marga morðingja. Heldur þú að landið okkar sé svo saklaust?“

Michael McFaul, fyrrverandi sendiherra í Rússlandi og ráðgjafi Barack Obama, sagði ógeðfellt og rangt af forsetanum að leggja Bandaríkin og Rússland að jöfnu þegar kæmi að siðferði.

Margir samflokksmenn Trump hafa kallað eftir því að hann dragi úr vinsamlegheitum sínum í garð Rússlandsforseta, án árangurs. Á meðan kosningabaráttan stóð yfir neitaði Trump að gagnrýna Pútín og sagði bætt samskipti við stjórnvöld í Kreml þjóna hagsmunum Bandaríkjanna.

Þá hefur afstaða Trump gagnvart Úkraínu vakið athygli en eftir símtal við Petro Porosjénkó í gær sögðu talsmenn Hvíta hússins að forsetarnir hefðu rætt „langvarandi átök Úkraínu við Rússland“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert