Verja ferðabann Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti heitir því að Bandaríkin og bandamenn þeirra muni vinna sigur á hersveitum dauðans og koma í veg fyrir að öfgafullir íslamistar komist til Bandaríkjanna. Þetta kom fram í fyrstu heimsókn hans til Central Command – öryggisþjónustu sem meðal annars ber ábyrgð á svæðum eins og Mið-Austurlöndum. Hann tilgreindi hins vegar ekki hernaðaráætlun sína um hvernig ætti að sigrast á Ríki íslams.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið ver tilskipun forsetans varðandi bann við komu fólks frá sjö ríkjum og hvetur áfrýjunardómstól til þess að koma því á að nýju vegna þjóðaröryggis.

Trump ræddi heldur ekki um hvort hann myndi draga Bandaríkin út í sameiginlegum aðgerðum gegn Ríki íslams í Sýrlandi og Írak sem forveri hans í starfi, Barack Obama, kom á. 

Forsetinn ávarpaði um 300 hernaðarsérfræðinga hjá Central Command í MacDill-herstöðinni í Tampa í Flórída í gær. Þar sagði hann að Bandaríkin og bandamenn þeirra tali einni röddu – að verjast hersveitum dauða og eyðingar. „Við munum sigra öfgafulla íslamska hryðjuverkamenn og við munum ekki leyfa þeim að skjóta rótum í landi okkar,“ sagði Trump og bætti við: „Frelsi, öryggi og réttlæti munu halda velli.“ 

Skömmu eftir embættistökuna skrifaði Trump undir tilskipun um að banna fólki frá sjö ríkjum, Íran, Írak, Líbýu, Sómalíu, Súdan, Sýrlandi og Jemen, að koma til Bandaríkjanna.

James Robart, alríkisdómari í Seattle-borg, setti lögbann á gildistöku þess á föstudaginn var þar sem það stæðist ekki stjórnarskrá og í dag verður tekist á um það fyrir áfrýjunardómstól hvort bannið eigi rétt á sér eður ei. 

Í 15 blaðsíðna skýrslu dómsmálaráðuneytisins kemur fram að bannið sé lögmætt og standist stjórnarskrá og þar sé ekkert kveðið á um að það sé bann við komu múslima til Bandaríkjanna.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert