416 grindhvalir strandaðir á grynningum

Grindhvalur (e. pilot whale).
Grindhvalur (e. pilot whale). Ljósmynd/Wikipedia

Hundruð hvala hafa drepist eftir að hafa strandað á Farewell Spit í Golden Bay á Nýja-Sjálandi. Íbúar á svæðinu hafa verið hvattir til að fara úr skóla og vinnu og aðstoða við björgun þeirra sem enn eru á lífi.

Yfirvöld uppgötvuðu í gær að 416 grindhvalir hefðu strandað á grynningunum í flóanum en í morgun höfðu 70% þeirra drepist. Starfsmenn dýraverndunaryfirvalda og sjálfboðaliðar hafa freistað þess að bjarga þeim 100 hvölum sem enn eru á lífi.

Að sögn yfirmanns verndunaryfirvalda á svæðinu er strandið það mesta sem menn muna.

Andrew Lamason sagðist „ekki hafa hugmynd“ um hvað hefði leitt til þess en grynningarnar í flóanum gera það að verkum að þegar hvalirnir eru komnir inn flóann lenda þeir í erfiðleikum með að komast út aftur.

Þeir hvalir sem tekist hefur að koma aftur á flot eru enn fyrir utan flóann og segir Lamason að þar sem svo margir „ættingja“ þeirra liggja allir á grynningunum, myndu þeir líklega festast aftur þegar fjaraði.

Yfirvöld eru undir það búin og hyggjast ræsa út mannskap ef það gerist.

Að sögn Lamason hafa verið gerðar tilraunir til að leiða hvalina aftur út á haf. Hann segir þá hins vegar taka leiðbeiningum illa og fara það sem þeir vilja.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert