16 ára dönsk stúlka ákærð fyrir hryðjuverk

AFP

Ríkissaksóknari í Danmörku hefur ákært sextán ára gamla stúlku fyrir að hafa ætlað að fremja hryðjuverkaárás. Hún er fyrsta konan sem er ákærð fyrir hryðjuverk í Danmörku.

Stúlkan var handtekin í bænum Kundby á Sjálandi í janúar í fyrra með sprengiefni en hún ætlaði sér að sprengja upp tvo skóla.

Mikil leynd hefur hvílt yfir málinu frá því stúlkan var handtekin og hafa dómskjöl þess ekki verið aðgengileg almenningi og fjölmiðlum.

Í dag gaf saksóknari í Kaupmannahöfn út tilkynningu þar sem kom fram að hún yrði ákærð fyrir tilraun til þess að fremja hryðjuverkaárás en hún ætlaði að sprengja upp einkaskóla fyrir gyðinga (Carolineskolen) í Kaupmannahöfn og eins skólann sem hún gekk sjálf í, Sydskolen í Fårevejle.

Lise-Lotte Nilas, ríkissaksóknari, segir að stúlkan sé ákærð fyrir að hafa búið til sprengjurnar og fyrir að hafa ætlað sér að sprengja þær.

25 ára karlmaður sem var handtekinn í tengslum við málið hafi verið látinn laus og verði ekki ákærður. Maðurinn hafði áður barist með vígasamtökum í Sýrlandi og sagt að hann væri félagi stúlkunnar.

Að sögn Nilas lagði lögreglan hald á ýmiskonar gögn við rannsóknina, þar á meðal rafræn gögn tengd manninum. Ljóst sé að hann tengist fyrirætlunum stúlkunnar ekki á nokkurn hátt og því hafi hann verið látinn laus í dag en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í fyrra.

Stúlkan hafði stuttu áður snúist til íslam og að sögn nágranna hennar hafði hún skrifað á Facebook að hún vildi fá fleiri Dani til þess að skipta um trú. Réttarhald hefst yfir stúlkunni 7. apríl í Holbæk og á hún að minnsta kosti fjögurra ára fangelsisdóm yfir höfði sér verði hún fundin sek.

Frétt Politiken

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert