Dönsk stúlka til liðs við hryðjuverkasamtök

Danski fáninn.
Danski fáninn. Ljósmynd/Norden.org

Fimmtán ára dönsk stúlka sem hafði snúist til íslam var handtekin í gær og kærð fyrir vörslu sprengiefnis og að lýsa yfir stuðningi við hryðjuverkastarfsemi.

Stúlkan var handtekin á heimili sínu í bænum Kundby á Sjálandi síðdegis í gær samkvæmt frétt TV2.

Í twitterfærslu lögreglunnar frá því í morgun kemur fram að hún muni ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Í frétt TV2 kemur fram að stúlkan hafi nýlega snúist til íslamstrúar. Einn af nágrönnum hennar segir að það komi fram á facebooksíðu hennar að hún vilji að íslamstrú verði allsráðandi í Danmörku. Hún sé félagi í Hizb ut-Tahrir, íslömskum samtökum sem vilja koma á kalífadæmi.

Í Berlingske kemur fram að ekki hafi verið upplýst hvað valdi því að stúlkan skipti um trú. Þar er vísað í ummæli Brigitte Nacos prófessors í viðtali við Washington Post í fyrra þar sem hún segir að þetta sé dæmigert fyrir unglinga. Þar er vísað til þess að vestrænar unglingsstúlkur hafi gengið til liðs við hryðjuverkasamtök og líti Ríki íslams sömu augum og poppstjörnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert