Lífstíðardómur í Svíþjóð fyrir aftöku í Sýrlandi

New York Times birti myndskeið af aftökunni.
New York Times birti myndskeið af aftökunni. Skjáskot af NYT

Sýrlendingur með dvalarleyfi í Svíþjóð var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi í Svíþjóð fyrir brot á alþjóðlegum mannúðarlögum fyrir að hafa tekið þátt í aftöku sjö manna í Idlib í Sýrlandi árið 2012.

Haisam Sakhanh, sem er 46 ára gamall, var handtekinn í Örebro í mars í fyrra grunaður um að hafa skotið mann með riffli við aftöku á vegum vopnaðra sveita íslamsita, Firqat Suleiman el-Muqatila. Við yfirheyrslur játaði hann að hafa tekið þátt í skotárásinni en neitaði að hafa brotið alþjóðleg lög.

Árið 2013 birti New York Times myndskeið sem sýndi sjö menn tekna af lífi. Mennirnir, sem voru með hendur bundnar fyrir aftan bak, voru skotnir af stuttu færi. Myndskeiðið var meðal gagna sem notuð voru við réttarhöldin í Stokkhólmi. Sakhanh sótti um hæli í Svíþjóð árið 2013 og hefur dvalið þar síðan.

Verjandi hans hélt því fram að aftakan hafi verið gerð að skipun dómstóls sem hafði dæmt þá til dauða skömmu áður.

Ein stærsta spurningin sem tekist var á um við réttarhöldin var sú hvort samtök, sem ekki eru ríkisvald, geti sett á laggirnar dómstól sem ætlað er að halda uppi lögum og reglum í átökum sem alþjóðasamfélagið kemur ekki að, segir héraðsdómarinn Tomas Zander.

Var það niðurstaða dómstólsins að það sé mögulegt undir ákveðnum kringumstæðum en í þessu tilviki hafi innan við tveir dagar liðið frá því hermennirnir, sem voru teknir af lífi, voru handteknir og þangað til þeir voru teknir af lífi. Það sé merki um að þeir hafi ekki fengið réttláta meðferð fyrir dómi líkt og eðlilegt er hjá lögmætum dómstól.

Dómstóllinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að tengslin á milli aftöku og átakanna í Sýrlandi þýði að um brot á alþjóðlegum mannúðarlögum er að ræða. Því sé Haisam Sakhanh dæmdur fyrir alvarlegt brot á alþjóðalögum.

Ýmsir hafa fagnað niðurstöðu dómstólsins og segja hana merki um að Svíþjóð er ekki öruggt skjól fyrir stríðsglæpamenn.

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert