Tíu árásir á flóttamenn daglega

Flóttamenn í Þýskalandi að sækja um vinnu í lok janúar.
Flóttamenn í Þýskalandi að sækja um vinnu í lok janúar. AFP

Að meðaltali voru um 10 árásir gerðar á dag á flóttamenn í Þýskalandi á síðasta ári, samkvæmt innanríkisráðuneytinu. Alls voru gerðar 3.533 árásir á flóttamenn og húsnæði þeirra árið 2016, þar af voru gerðar 2.545 árásir á einstaklinga. 560 manns slösuðust vegna ofbeldisins, þar af 43 börn. BBC greinir frá

Tæplega þriðjungi árásanna var beint að húsnæði flóttamanna en það eru örlítið færri árásir en árið 2015. 217 sinnum var ráðist á flóttamannasamtök eða sjálfboðaliða.     

Þriðjungur árásanna átti sér stað fyrir utan húsnæði þeirra. Tæplega þúsund þeirra voru á flóttamenn inni í húsnæði þeirra. 

Ekki er hægt að bera saman tölur um fjölda árása eða ofbeldisbrota sem flóttamenn hafa orðið fyrir í Þýskalandi milli ára því þetta er í fyrsta skipti sem brotin eru flokkuð með þessum hætti.  

Fólk á rétt á að finna öryggi

„Fólk sem hefur flúið heimaland sitt og sækir í vernd í Þýskalandi á rétt á að upplifa öryggi,“ segir í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu. 

Þjóðverjar hafa tekið á móti tæplega 900 þúsund flóttamönnum undir stjórn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Samhliða því hefur hatursglæpum sem er beint gegn hælisleitendum fjölgað í landinu. 

Málefni flóttafólks í landinu eru talin setja svip sinn á næstu þingkosningar sem fara fram í september næstkomandi. Merkel, leiðtog­i Kristi­lega demó­krata­flokks­ins, sækist eft­ir fjórða kjör­tíma­bil­inu sem kansl­ari Þýska­lands. 

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert