Trump heitir „sögulegu“ fjármagni til varnarmála

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi ríkisstjórunum frá því að hann hygðist …
Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi ríkisstjórunum frá því að hann hygðist auka fjárframlög til varnarmála verulega. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hét í dag „sögulegri“ aukningu í fjárframlögum til varnarmála. Orðin lét Trump falla á fundi með ríkisstjórum Bandaríkjanna í Hvíta húsinu.

„Þetta fjárlagafrumvarp fylgir á eftir loforði mínu um að tryggja öryggi Bandaríkjamanna,“ sagði Trump. „Það mun fela í sér sögulega aukningu á fjárlögum til varnarmála.“ 

Trump mun á næstunni ávarpa báðar deildir þingsins og kynna þeim áherslur sínar á kjörtímabilinu, m.a. fjárlagafrumvarpið. Washington Post segir fjárlagafrumvarp forsetans gera ráð fyrir að fjárframlög til varnarmála verði aukin um 54 milljarða dollara og að á sama tíma verði dregið úr fjárframlögum til þróunaraðstoðar og flestra annarra málaflokka sem ekki tengist öryggismálum ríkisins.

„Við munum auka framlög til öryggismála og draga úr framlögum til málefna sem skipta minna máli. Flestar alríkisstofnanir munu fyrir vikið verða fyrir niðurskurði,“ hefur Washington Post eftir heimildamanni sem kemur að fjármálaáætlun forsetans.

„Við ætlum að gera meira fyrir minna og straumlínulaga stjórnina og gera hana ábyrga fyrir gjörðum sínum,“ sagði Trump á fundinum með ríkisstjórunum.

Þá kvaðst forsetinn einnig munu kynna áætlanir sínar um uppbyggingu innviða í ræðu sinni á þingi á morgun. „Við ætlum að auka fjárframlög vegna innviða umtalsvert,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert