Ráðherra rekinn úr landi

Hollenska lögreglan sprautaði vatni á mótmælendur fyrir utan ræðismannsskrifstofu Tyrkja í Rotterdam í gærkvöldi en deilur Hollendinga og Tyrkja hörðnuðu þegar leið á kvöldið. Tyrkneskum ráðherra var í gær vísað úr landi.

Tyrkir búsettir í Rotterdam eru afar ósáttir við aðgerðir lögreglu.
Tyrkir búsettir í Rotterdam eru afar ósáttir við aðgerðir lögreglu. AFP

Eftir að hafa reynt klukkutímum saman að róa mótmælendur í Rotterdam ákvað lögregla að dreifa mannfjöldanum fyrir utan ræðismannsskrifstofanna. Talið er að um eitt þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælunum. Fór lögregla á hestum inn í mannfjöldann og var með hunda sér til stuðnings. 

Mótmælendur voru ekki sáttir við aðgerðir lögreglu og svöruðu með því að kasta grjóti í óeirðalögregluna. Bílstjórar létu vel í sér heyra með því að liggja á bílflautunum og þenja vélarnar. 

Utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlut Cavusoglu, var fyrir helgi synjað um heimild til þess að koma til Hollands og koma fram á fundi í Rotterdam. Þar ætlaði hann að hvetja Tyrki sem eru búsettir í borginni til þess að greiða atkvæði með því að forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, fái aukin völd. Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram um málið í næsta mánuði.

AFP

Hollendingar kjósa sér nýtt þing á miðvikudag og höfðu yfirvöld ítrekað sagt að Cavusoglu væri ekki velkominn til landsins. Var flugvél ráðherrans synjað um lendingarleyfi í Rotterdam á föstudag. Í kjölfarið sagði Erdoğan að Hollendingar væru nasistar og fasistar.

Í gær ákvað fjölskyldumálaráðherra Tyrklands, Fatma Betul Sayan Kaya, að koma keyrandi frá Þýskalandi til Rotterdam. En eftir nokkurra klukkustunda samningaviðræður var henni fylgt af lögreglu að landamærum Þýskalands. Er hún afar ósátt við þessa framkomu og sakaði hollensk yfirvöld um yfirgang í garð kvenráðherra.

AFP

Hollenska ríkisstjórnin sakaði Kayu um óábyrga hegðun með framkomu sinni og að virða ekki bann við komu tyrkneskra ráðherra til landsins. Því hafi ítrekað verið komið á framfæri við tyrknesk stjórnvöld að hún væri ekki velkomin til Hollands en hún hafi virt þau að vettugi.

Cavusoglu er hins vegar kominn til Frakklands þar sem hann mun ávarpa stuðningsmenn tyrkneskra yfirvalda í borginni Metz í Austur-Frakklandi. Utanríkisráðuneyti Frakklands veitti heimsókninni blessun sína í gær.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert