Vísa Norður-Kóreubúum úr landi

AFP

50 Norður-Kóreubúum verður vísað úr landi í Malasíu þar sem dvalarleyfi þeirra er útrunnið, að sögn varaforsætisráðherra landsins. Mjög stirt er á milli ríkjanna tveggja eftir að Kim Jong-Nam, hálfbróðir leiðtoga N-Kóreu, var myrtur á flugvellinum í Kuala Lumpur. 

Frá morðinu fyrir mánuði hafa stjórnvöld í Kuala Lumpur og Pyongyang vísað erindrekum á víxl úr landi og bannað fólki að fara úr landi.

Ahmad Zahid Hamidi segir að mennirnir 50 sem verður vísað úr landi starfi í Sarawak-ríki á eyjunni Borneo. Þar eru fjölmargar kolanámur sem reiða sig nánast alfarið á erlenda farandverkamenn. Hann segir að mennirnir sem um ræðir séu farandverkamenn og að dvalarleyfi þeirra í Malasíu sé útrunnið. Á sama tíma hefur þremur starfsmönnum sendiráðs Malasíu í Norður-Kóreu og fjölskyldum þeirra verið bannað að yfirgefa N-Kóreu. 

Yfirvöld í Pyongyang hafa ekki viljað viðurkenna að maðurinn sem var myrtur með taugagasi á flugvellinum sé Kim þrátt fyrir að malasísk yfirvöld hafi fengið það staðfest með lífsýnum. Hins vegar krefjast þau þess að líkið verði sent til Norður-Kóreu.

Tvær konur, önnur frá Víetnam en hin frá Indónesíu, eru í gæsluvarðhaldi ákærðar fyrir morðið. Myndskeið úr öryggismyndavélum á flugvellinum sýnir þær strjúka andlit Kim með klút. Hann lést síðan á leiðinni á sjúkrahús. Yfirvöld í N-Kóreu segja aftur á móti að maðurinn hafi látist úr hjartaáfalli.

Hingað til hafa samskipti ríkjanna verið með miklum ágætum og þegnar þeirra hafa ekki þurft á vegabréfsáritunum að halda. Allt að 100 þúsund Norður-Kóreubúar starfa erlendis og margir þeirra eru í Malasíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert