Björguðu 3.000 manns á flótta

Ekki komast allir lífs af á flóttanum til Evrópu. Mynd …
Ekki komast allir lífs af á flóttanum til Evrópu. Mynd tekin á ströndum Líbíu í febrúar. AFP

Um 3.000 flóttamönnum var bjargað undan ströndum Líbíu í dag, eftir að þeir höfðu reynt að fara norður yfir Miðjarðarhafið til Evrópu. Þetta staðfestir ítalska landhelgisgæslan í samtali við fréttastofu AFP.

„Eftir nokkra rólega daga eru flóttamenn að koma í miklum mæli og nýta sér það hagstæða veður sem nú ríkir,“ segir starfsmaður landhelgisgæslunnar.

Björgunin samanstóð af 22 aðskildum aðgerðum, sem samræmdar voru af landhelgisgæslunni.

Eitt þeirra skipa sem tóku þátt var Aquarius, sem rekið er af samtökunum SOS Mediterranean og Læknum án landamæra. Forsvarsmenn skipsins segjast hafa bjargað 946 manns, þar á meðal 200 börnum sem ekki voru í fylgd fullorðinna.

Flóttafólkið sem skipið bjargaði fannst á reki um borð í níu viðar- og gúmmíbátum.

Samkvæmt tölum ítölsku ríkisstjórnarinnar hafði 16.206 manns verið bjargað á föstudag, en á sama tíma á síðasta ári voru þeir 11.911.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert