Sjúkraþyrla Vilhjálms í hættu stödd

Vilhjálmur í þyrlunni árið 2015.
Vilhjálmur í þyrlunni árið 2015. AFP

Sjúkraþyrla sem Vilhjálmur Bretaprins hefur oft flogið var aðeins hálfri sekúndu frá því að rekast á fjarstýrðan dróna.

Þetta kemur fram í skýrslu breskrar rannsóknarnefndar, að því er The Telegraph greinir frá.

Þar kemur fram að naumlega hafi verið komist hjá árekstri þyrlunnar og drónans í háloftunum og að einskær heppni hafi ráðið því að ekki varð alvarlegt slys.

Atvikið gerðist í 1.900 feta hæð laust fyrir klukkan átta að kvöldi til 26. ágúst í fyrra. Um borð í þyrlunni voru þrír sjúkrastarfsmenn og tveir flugmenn.

Vilhjálmur Bretaprins hefur oft flogið þyrlunni en hann var ekki um borð. Konungsfjölskyldan sendi frá sér yfirlýsingu í janúar síðastliðnum, samkvæmt frétt AFP, þar sem kom fram að hann ætlaði sér að hætta að fljúga henni til að geta einbeitt sér betur að fjölskyldunni. 

Lögreglan var látin vita af atvikinu en tókst ekki að hafa uppi á eiganda drónans, sem var flogið yfir leyfilegri hæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert