Kushner býður sig fram til yfirheyrslu

Kushner og Trump.
Kushner og Trump. AFP

Jared Kushner, ráðgjafi Donald Trump og tengdasonur, hefur boðist til þess að koma fram fyrir leyniþjónustunefnd bandaríska þingsins sem hluti af rannsókn hennar á tengslum Trump við Rússa.

Þetta kemur fram á vef CNN.

Talsmaður Hvíta hússins greindi frá þessu í dag. Kushner starfaði sem helsti tengiliður erlendra stjórnvalda og embættismanna við forsetaframboð Trump. „Í ljósi þess hlutverks hefur hann boðið sig fram til þess að ræða við nefndina en á eftir að fá svar,“ sagði talsmaðurinn.

CNN greindi jafnframt frá því fyrr í dag að Kushner væri sérstaklega til rannsóknar af nefndinni út af fyrrnefndum tengslum.

Greint var frá rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar á tengslum helstu ráðgjafa Trump við Rússa í síðustu viku. Þingnefndin hefur byrjað að yfirheyra vitni og verður fyrsta opinbera yfirheyrslan á fimmtudaginn.

Orðróm­ur hef­ur verið um tengsl Trump og sam­starfs­manna hans við stjórn­völd í Rússlandi allt frá því í kosn­inga­bar­átt­unni. 

Í janú­ar greindu banda­rísk­ar leyniþjón­ustu­stofn­an­ir frá því að tölvuþrjót­ar sem störfuðu fyr­ir rúss­nesk yf­ir­völd hafi brot­ist inn i tölvu­póst­kerfi hátt­settra demó­krata og birt tölvu­pósta sem komu sér illa fyr­ir kosn­inga­bar­áttu Hillary Cl­int­on, keppi­naut Trump í kosn­inga­bar­átt­unni.

Rík­is­stjórn Trump hefur alltaf haldið því fram að engar sannanir væru fyrir meintu leynimakki forsetans.

„Það eru eng­ar sann­an­ir fyr­ir leyni­makki á milli Trump og Rúss­lands og það eru eng­ar sann­an­ir fyr­ir neinu hneyksli í tengsl­um við Trump og Rússa,“ sagði hátt­sett­ur emb­ætt­ismaður í yf­ir­lýs­ingu fyrr í mánuðinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert