Björguðu ungbarni af Miðjarðarhafi

Yfirfullir björgunarbátar eru algeng sjón á Miðjarðarhafinu.
Yfirfullir björgunarbátar eru algeng sjón á Miðjarðarhafinu. AFP

Fjögurra daga gamalt barn var meðal þeirra 480 flóttamanna sem bjargað var um borð í skip á Miðjarðarhafinu í gær.

Barnið var um borð í gúmmíbát. Um 200 manns voru um borð í tveimur slíkum bátum sem voru í samfloti yfir hafið. Flóttafólkið er frá Norður-Afríku, Srí Lanka og Jemen. Báturinn var á reki norður af strandbænum Sabratha í Líbíu en svæðið er einn helsti upphafsstaður þeirra sem freista þess að flýja yfir Miðjarðarhaf til Evrópu.

Mannúðarsamtökin Proactiva Open arms stóðu að björguninni og tók hún um þrjár klukkustundir. Fólkið var fært um borð í gamlan togara sem samtökin hafa á sínum snærum og nota til að bjarga flóttafólki úr sjávarháska. Fólkið verður flutt til Sikileyjar á Ítalíu.

„Fyrir viku veiddi ég lík upp úr Miðjarðarhafinu í fyrsta sinn. Í dag bjargaði ég nýju lífi,“ segir Daniel Calvelo, 26 ára starfsmaður samtakanna sem flutti barnið frá gúmmíbátnum og í björgunarskipið, segir í frétt Reuters.

Móðir barnsins er 29 ára og frá Nígeríu. Henni og eiginmanni hennar var einnig bjargað. Þau höfðu búið í Líbíu í tvö ár en ákváðu svo að flýja til Evrópu eftir að þau eignuðust barnið.

„Við viljum fara til Frakklands eða Þýskalands til að eiga framtíð fyrir fjölskylduna,“ segir faðirinn við Reuters. 

Um 600 flóttamenn hafa drukknað í Miðjarðarhafinu í ár á leið sinni til Evrópu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert