11 ára stúlka meðal fórnarlambanna

Blóm og kerti hafa verið lögð að minnismerki um fórnarlömb …
Blóm og kerti hafa verið lögð að minnismerki um fórnarlömb árásarinnar. 11 ára stúlka er sögð í hópi þeirra sem létust. AFP

Ellefu ára stúlka er sögð vera í hópi þeirra fjögurra sem fórust í hryðjuverkaárásinni í Stokkhólmi í gær. Sænska dagblaðið Expressen hefur eftir ættingja stúlkunnar  að hún hafi verið á leið heim úr skólanum þegar hún varð fyrir flutningabílnum sem árásarmaðurinn ók inn í mannfjölda við Åhléns City-versl­un­ar­miðstöðina í miðborginni.

Expressen segir stúlkuna hafa talað við móður sína í síma skömmu áður en árásin var gerð og ætluðu þær að hittast við neðanjarðarlestina skammt frá árásarstaðnum.

Stuttu síðar ók bílinn inn í mannþröngina og skelfingin greip um sig. Mikil leit hófst hjá fjölskyldunni í kjölfarið að stúlkunni og ók hún á milli sjúkrahúsa í borginni í von um að fá fréttir af henni þar.

Sænsk yfirvöld greindu frá því í gær að fjórir hefðu farist í árásinni og 12 slasast, þar af níu alvarlega.

Lögregla gerði m.a. húsleit í íbúð í fjölbýlishúsi í Varberg …
Lögregla gerði m.a. húsleit í íbúð í fjölbýlishúsi í Varberg í dag. AFP

Kom heim og bað um DNA-sýni

„Síðan kom lögregla heim til þeirra og bað um DNA-sýni og þá áttuðum við okkur á að fréttirnar yrðu líkast til slæmar,“ hefur Expressen eftir ættingjanum. Tilkynningin um að hún væri í hópi hinna látnu hafi svo komið á hádegi í dag. „Það var slæmt að þetta tæki svona langan tíma, en nú þarf móðir hennar að fá tíma til að syrgja.“

Boðað hefur verið verið til sér­stakr­ar kær­leiks­stund­ar á Serg­els-torgi á morg­un í gegn­um Face­book und­ir yf­ir­skrift­inni „Stokk­hólm­ur stend­ur sam­einaður!“ og hafa 23.000 manns þegar lýst yfir áhuga á að taka þátt. 

Drottn­ingar­gatan var opnuð á ný fyr­ir um­ferð í kvöld, þegar tækni­deild lög­regl­unn­ar hafði lokið rann­sókn á vett­vangi.

Lög­regla hef­ur staðið fyr­ir hús­leit á nokkr­um stöðum í dag og hafa sænsk­ir fjöl­miðlar greint frá því að þrír hið minnsta hafi verið hand­tekn­ir í tengsl­um við rann­sókn­ina. Lög­regla hef­ur ekki viljað staðfesta þær fregn­ir en hef­ur þó sagt að hún telji mann­inn sem hand­tek­inn var í gær­kvöldi, 39 ára Úsbeka, vera árás­ar­mann­inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert