„Gerði þetta því mig verkjar í hjartað“

Rakhmat Akilov fyrir rétti í Stokkhólmi. Hann segist hafa viljað …
Rakhmat Akilov fyrir rétti í Stokkhólmi. Hann segist hafa viljað hefna fyrir þátttöku Svía í baráttunni gegn Ríki íslams. AFP

Rakhmat Akilov, hælisleitandinn frá Úsbekistan sem myrti fimm manns í Stokkhólmi á síðasta ári, segist með aðgerðum sínum hafa viljað hefna fyrir þátttöku Svía í baráttunni gegn Ríki íslams.

Réttarhöld hófust yfir Akilov í síðustu viku og lýsti hann sig strax á fyrsta degi sekan um að hafa stolið flutningabíl og að hafa ekið niður gangandi vegfarendur á fjölfarinni göngugötu í miðborg Stokkhólms.

Er Akilov ekki sagður hafa látið neina iðrun eða eftirsjá í ljós er hann settist í vitnastúkuna í dag. Sagði hann réttinum, með aðstoð dómtúlks, að hann hafi viljað þrýsta á „Svíþjóð að binda endi á þátttöku sína í baráttuna gegn kalífadæminu“.  Kvaðst Akilov hafa viljað leggja sitt af mörkum til að koma á fót kalífadæmi líkt og Múhameð spámaður spáði fyrir um.

„Ég gerði þetta því mig verkjar í hjartað og sálina vegna þeirra sem hafa þjáðst vegna sprenginga NATO,“ sagði Akilov.

Árásin minnir um margt á árásir í Nice og Berlín, þar sem stórum ökutækjum var ekið inn í mannfjölda, en ólíkt þeim þá hefur Ríki íslams aldrei lýst yfir ábyrgð á tilræðinu í Stokkhólmi.

Eyddi þremur mánuðum í að undirbúa árásina

Sænsk yfirvöld höfnuðu umsókn Akilovs um hæli þar í landi árið 2016 og kvöldið áður en hann lét til skara skríða þá sór hann Ríki íslams hollustu sína.

Akilov er þó sagður hafa eytt þremur mánuðum í að undirbúa árás sína og sagði saksóknarinn Hans Ihrman, er réttarhöldin hófust að þau muni auka skilning manna á róttæknihæningu og hvernig hún eigi sér stað hjá þeim sem tilheyri jaðarhópum í samfélaginu.

Akilov er ákærður fyrir hryðjuverk og tilraun til hryðjuverk, en þegar hann hafði ekið bíl sínum á vegfarendur reyndi hann, án árangurs, að kveikja á sprengjubelti sem hann bar á sér. Kveðst Akilov hafa viljað deyja píslarvættisdauða í sprengingunni.“

Hann flúði því næst af vettvangi, en var handtekinn af lögreglu nokkrum tímum síðar.

Talið er að Akilov hafi verið einn af verki, en athygli lögreglu hefur þó einnig beinst að nokkrum dulkóðuðum samræðum Akilovs á spjallsvæðum við óþekkta einstaklinga fyrir og eftir árásina.

Saksóknari hefur farið fram á lífstíðardóm  og því næst brottvikningu yfir Akilov vegna málsins, en búist er við að dómur liggi fyrir í máli hans í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert