Bannon og Kushner semja frið

Jared Kushner, Steve Bannon og Reince Priebus.
Jared Kushner, Steve Bannon og Reince Priebus. AFP

Steve Bannon og Jared Kushner, helstu ráðgjafar Donald Trump Bandaríkjaforseta, eru sagðir hafa átt fund og „grafið stríðsöxina“. Tilgangur fundarins var að binda enda á valdabaráttuna í innri hring Trump, sem þykir hafa grafið undan skilaboðum og stefnumálum forsetans.

Bannon, kænskumeistari forsetans, og Kushner, rágjafi hans og tengdasonur, hittust á föstudag að beiðni Reince Priebus, starfsmannastjóra Hvíta hússins, sem tjáði þeim að ef einhver ágreiningur væri á milli þeirra um stefnumál, ættu þeir að viðra það innanhúss.

Hefur Reuters eftir háttsettum heimildarmanni að Priebus hafi sagt mönnunum að láta af valdabaráttu sinni og einbeita sér að stefnumálum stjórnarinnar.

Samkvæmt heimildarmanninum gengu báðir menn af fundi sammála um að það væri tímabært að „grafa stríðsöxina“ og halda áfram. Þá hefur Reuters eftir fjórum fyrrverandi ráðgjöfum forsetans að Trump sé vanur ringulreið sem viðskiptajöfur en sé orðinn þreyttur á innahússátökunum í Hvíta húsinu.

Trump er sagður vanur kaos en orðinn leiður á innherjaátökum …
Trump er sagður vanur kaos en orðinn leiður á innherjaátökum í Hvíta húsinu. AFP

Einn af talsmönnum forsetans, Lindsay Walters, sagði ekkert til í þrálátum orðróm um að til standi að gera breytingar á starfsmannaliði Hvíta hússins.

Bannon er sagður hafa verið ósammála Kushner og Gary Cohn, formanni efnhagsráðs Hvíta hússins. Kusnher hafi freistað þess að þoka forsetanum í átt að meginstefnuafstöðu en Bannon hafi freistað þess að halda lífi í þeim þjóðernisloga sem tryggði viðskiptajöfrinum forsetaembættið.

Sumir fyrrverandi ráðgjafa Trump hafa kennt Priebus um að hafa ekki náð tökum á deilum mannanna fyrr en nú og sagt að það kæmi til greina að skipta honum út fyrir Cohn. Aðrir segja stöðu Priebus trygga.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert