Spicer vafðist tunga um tönn

Sean Spicer, talsmanni Hvíta hússins, vafðist tunga um tönn á blaðamannafundi í dag þegar hann virtist, að minnsta kosti um sinn, gleyma því að helförin hefði átt sér stað. Sagði hann að Adolf Hitler, fyrrverandi leiðtogi Þýskalands, hefði ekki notað efnavopn gegn borgurum landsins.

Spicer var að tala um efnavopnaárásina sem gerð var í Sýrlandi í síðustu viku, sem Bandaríkjastjórn sakar sýrlensku ríkisstjórnina um að hafa skipulagt, þegar hann sagði: „Þú hafðir einhvern jafn fyrirlitlegan og Hitler, sem lagðist ekki einu sinni svo lágt að nota efnavopn.“

Ummælin féllu á fyrsta degi páskahátíðar gyðinga og vöktu vægast sagt undrun í salnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert