Notaður sem mennskur skjöldur framan á bíl

Á myndskeiðinu má sjá hvernig maðurinn er bundinn framan á …
Á myndskeiðinu má sjá hvernig maðurinn er bundinn framan á bifreið sem ekið er í gegnum Budgam-svæðið í Kashmir.

Indverski herinn rannsakar nú ásakanir um að hermenn hafi bundið mann við jeppabifreið hersins í Kashmir-héraði og notað hann sem mennskan skjöld svo mótmælendur myndu ekki grýta bílinn með steinum.

Stutt myndskeið sem sýnir ónefndan mann bundinn við jeppabifreið fékk mikla útbreiðslu á samfélagsmiðlum í dag, en þar er keyrt í gegnum Budgam-svæðið í Kashmir sem er undir stjórn Indlands. Bæði Pakistan og Indland gera tilkall til svæðisins og hafa átök verið tíð þar.

Í vikunni skutu hermenn á þúsundir mótmælenda sem mótmæltu indverskri stjórn héraðsins. Átta létust og tugir særðust þá í mótmælunum, sem tengdust kosningum í héraðinu. Meðal hinna særðu voru hermenn sem voru grýttir af mótmælendum.

Omar Abdullah, stjórnarandstöðuleiðtogi á svæðinu, sagði á Twitter í dag að myndskeiðið væri sjokkerandi.

Í frétt AFP er haft eftir mannréttindasamtökum á svæðinu að indverski herinn hafi notað þessa aðferð síðan í lok níunda áratugarins til að verjast árásum frá mótmælendum. Með tilkomu samfélagsmiðla séu þessi atvik hins vegar að komast í umræðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert