Kínverjar hafa áhyggjur af þróun mála

Kínverjar, sem hafa löngum verið bandamenn leiðtoga Norður-Kóreu, eru ef …
Kínverjar, sem hafa löngum verið bandamenn leiðtoga Norður-Kóreu, eru ef til vill að missa þolinmæðina en miða engu að síður enn að friðsamlegri lausn. AFP

Stjórnvöld í Kína hafa verulegar áhyggjur af kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu, að sögn talsmanns kínverska utanríkisráðuneytisins. Lu Kang sagði Kína mótfallið orðum eða gjörðum sem gætu aukið spennu á Kóreuskaganum.

Ummælin lét Lu falla í kjölfar þess að varautanríkisráðherra Norður-Kóreu sagði í samtali við BBC að stjórnvöld í Pyongyang hygðust halda áfram eldflaugatilraunum og grípa til fyrirbyggjandi kjarnorkuárásar ef þau teldu Bandaríkin vera að undirbúa aðgerðir.

Eldfim orð hafa fallið beggja vegna borðs síðastliðna daga en Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, varaði Norður-Kóreu við því að storka stjórnvöldum í Washington og sagði þolinmæðina gagnvart Pyongyang á þrotum.

Samkvæmt BBC virðast stjórnvöld í Peking einnig vera orðin óþolinmóð í garð bandamanna sinna í Norður-Kóreu. Haft er eftir Lu að kínversk stjórnvöld stefni áfram að kjarnorkuafvopnun Kóreuskaga og því að viðhalda friði á svæðinu.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert