Ástandið í Jemen orðið „óbærilegt“

Vannæring ógnar lífi sífellt fleiri barna í Jemen. Tvær milljónir …
Vannæring ógnar lífi sífellt fleiri barna í Jemen. Tvær milljónir barna eru nú alvarlega vannærðar. Ljósmynd/UNICEF

Um 75% íbúa Jemen þurfa nauðsynlega á hjálp að halda og 25% íbúanna þurfa matargjafir hið fyrsta. Sjö milljónir búa við verulegt fæðuóöryggi og þurfa matargjafir samstundis og tvær milljónir barna eru alvarlega vannærðar. „Það stefnir í hreinar hörmungar,“ hefur BBC eftir Robert Mardini sem fer fyrir Mið-Austurlandadeild Rauða krossins. „Það segja manni allir að ástandið sé orðið óbærilegt.“

Ráðstefna þar tryggja á fjármögnun á hjálparstarfi í Jemen er haldin í Genf í dag, en Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst ástandinu þannig að Jemen sé á barmi einnar mestu mannúðarógnar sem um getur.

Jemen var eitt fátækasta ríki Mið-Austurlanda áður en átök hófust í landinu milli Jemen stjórnar, sem stýrir aðgerðum sínum frá Sádí-Arabíu, og uppreisnarmanna Húta. Tveimur árum eftir að borgarastríðið hófst er landið á barmi hungursneyðar.

Vannært barn er sett á viktina hjá hálparstarfsmönnum Sameinðu þjóðanna …
Vannært barn er sett á viktina hjá hálparstarfsmönnum Sameinðu þjóðanna í bænum Baidoa í Jemen. AFP

Skorturinn í landinu er slíkur að 19 milljónir af þeim 25,6 milljónum sem búa í Jemen, þurfa nauðsynlega á aðstoð að halda, samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna. Af þeim búa 7 milljónir við verulegt fæðuóöryggi og tvær milljónir barna eru alvarlega vannærðar.

Gleymdu átökin í Jemen

Þó ítrekað hafi verið varað við þeim hörmungum sem eru yfirvofandi í Jemen, hefur einungis náðst að safna um 15% af þeim 2,1 milljarði dollara sem Sameinuðu þjóðirnar hafa óskað eftir til kaupa á hjálpargögnum og vistum.

BBC hefur eftir talsmönnum hjálparstofnanna að þeir ráðherrar sem taki þátt í ráðstefnunni í Genf í dag, verði nú að auka fjárframlög ríkja sinna.

„Átökin í Jemen eru gleymd,“ sagði Caroline Anning hjá samtökunum Save the Children. Hún telur að sú mikla áhersla sem hefur verið á málefni Sýrlands og Írak valdi því að fjármagn fáist ekki til hjálparstarfsins í Jemen. Ráðstefnan í dag breyti því þó vonandi, enda mæta ráðherrar sjaldnast á slíkar ráðstefnur án þess að til standi að opna budduna.

Jemensk stúlka ber plastbrúsa sem filla á vatni sem flutt …
Jemensk stúlka ber plastbrúsa sem filla á vatni sem flutt hefur verið með flutningabíl á svæðið. Margir búa við vatnsskort, ekki síður en matarskort í kjölfar borgarastríðsins. AFP

Fáist aukið fé til hjálparstarfsins þá bíður hjálparstofnanna gífurlega mikil vinna, en innan við helmingur allra sjúkrahúsa í Jemen eru enn starfandi og búa þau sem enn starfa við stöðugan skort á starfsfólki, lyfjum og rafmagni. Tvær milljónir barna hafa heldur ekki getað stundað skóla vegna átakanna í landinu.

Unicef, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur reiknað út að barn deyi á tíu mínútna fresti úr sjúkdómum sem hægt væri að lækna.

„Vannært barn er níu sinnum líklegra til að deyja úr sjúkdómum sem hægt væri að lækna, heldur en barn sem er vel nært,“ sagði Christophe Boulierac hjá Unicef. „Við verðum að auka skilning á áhrifunum sem þessi hræðilegu átök hafa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert