Dularfullt kattarmál í smábæ

Þessi köttur er vel hærður. Myndin tengist fréttinni aðeins óbeint. …
Þessi köttur er vel hærður. Myndin tengist fréttinni aðeins óbeint. Það er að segja, þessi köttur er ekki meðal fórnarlambanna. AFP

Lögreglan í smábæ í Waynesboro í Virginia stendur frammi fyrir mikilli ráðgátu. Einhver í bænum fer um og rakar feldinn af köttum bæjarins. Flestir kettirnir eru annað hvort rakaðir á fótunum eða kviðnum. Þetta hafa orðið örlög að minnsta kosti sjö katta í bænum síðustu mánuði.

Lögreglustjórinn Kelly Walker segir að kettina hafi ekki sakað að öðru leyti. Þeir hafi komist aftur til síns heima, sumir hverjir örlítið skelkaðir. En mörgum finnst þessi gjörningur óhugnanlegur og vilja að lögreglan ráði fram úr gátunni.

Í frétt AP-fréttastofunnar er haft eftir lögreglustjóranum að allt hafi þetta verið góðir heimiliskettir, merktir og vel hirtir. Walker segist því ekki viss um hver glæpurinn sé, þar sem dýrin hafi ekki verið særð eða þeim beinlínis stolið. Hins vegar segist hann vel skilja bæjarbúa sem vilja að sá sem þetta geri hætti því og það ekki seinna en strax.

Lögreglustjórinn heyrði fyrst af málinu í síðustu viku. Þá hafi íbúar farið að biðja hann um að setja upp auglýsingar þar sem óskað væri eftir upplýsingum um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert