Útskúfun ekknanna

Rúmlega tuttugu ekkjur búa þröngt í ekknaheimili í Varanasi. Það …
Rúmlega tuttugu ekkjur búa þröngt í ekknaheimili í Varanasi. Það er betra en gatan. Yngri konur úr nágrenninu hjálpa til við matseld og aðhlynningu. mbl.is/Helgi Bjarnason

Konurnar á ekknaheimilinu Varanasi Durga Ashram láta vel af sér. Þar fá rúmlega tuttugu aldraðar ekkjur víðsvegar að úr Indlandi húsaskjól, mat og þjónustu prests. Þó að þær séu lánsamari en ekkjurnar sem þurfa að lifa á betli eða vændi í fátækrahverfum þessarar helgu borgar hindúa á bakka Ganges-fljóts hafa þær átt erfiða ævi, brottreknar af heimilinum sínum og sniðgengnar af samfélaginu.

„Maðurinn minn var drykkjumaður. Eftir að hann dó tók bróðir hans landið okkar og rak mig í burtu. Þetta voru eignir föður míns. Þau hótuðu að drepa mig. Ég kom hingað til Varanasi til að fá betri örlög,“ segir Meenavshi Bhattachapaya, sextug ekkja sem bjó í nágrenni Mumbai, stórborgarinnar í Indlandi. Hún hefur verið ekkja í tuttugu ár en dvalið síðustu tíu árin á þessu ekknaheimili með andlegri þjónustu (ashram) í Varanasi.

Taldar færa ógæfu

Indverjar glíma enn við forn og úrelt viðhorf til ekkna, sérstaklega á vanþróaðri svæðunum í norðurhluta landsins. Þær fá á sig skömmina af andláti eiginmanna sinna og er óttast að þær færi fjölskyldunum ógæfu. Eru oft reknar af heimilum sínum og síðan algerlega sniðgengnar af samfélaginu. Þurfa að lifa í útskúfun og fyrirlitningu það sem eftir er.

Stundum er farið með ekkjurnar til Varanasi eða annarra helgustu borga hindúa og þær skildar eftir hjálparlausar á götuhorni eða við ekknaathvörf sem eru mörg í Indlandi. Þær taka stundum sjálfar á sig skömmina af dauða eiginmanna sinna og yfirgefa heimilin og enda þá oft í helgu borgunum. Trúa hindúar því að þeir sem deyja þar fái lausn frá hringrás endurholdgunarinnar og komist í alsæluna.

Fátækrahverfin á pílagrímasvæðinu í Varanasi, á bökkum Ganges-fljóts, eru hins vegar ömurleg. Þar bíður fátt annað en betl eða að lenda í klóm glæpahringja sem selja þær í vændi sem greiðslu fyrir húsaskjól.

Meenavshi Bhattachapaya, sextug ekkja sem bjó í nágrenni Mumbai, er …
Meenavshi Bhattachapaya, sextug ekkja sem bjó í nágrenni Mumbai, er viðræðugóð og glöð þrátt fyrir að fjölskyldan hafi ekki komið vel fram við hana eftir dauða eiginmannsins. mbl.is/Helgi Bjarnason

Erfitt er að skilja hvers vegna ekkjur eru þannig útskúfaðar úr samfélaginu eða útskúfa sér jafnvel sjálfar. Það á sér langa sögu og tengist að einhverju leyti lakri stöðu kvenna í samfélaginu, miðað við vestræn gildi. Áður fyrr voru ekkjur oft brenndar, að eigin ósk eða fjölskyldunnar, þegar líkamsleifar eiginmanna þeirra voru brenndar. Bretar bönnuðu þetta á nýlendutímanum í byrjun nítjándu aldar en indversk lög bönnuðu brennurnar ekki fyrr en á níunda tug aldarinnar. Einstaka tilvik voru um slíkar brennur fram eftir tuttugustu öldinni.

Ekkjur í áratugi

Stjórnvöld og frjáls hjálparsamtök hafa verið að reyna að breyta stöðu ekkna og viðhorfum samfélagsins. Fjöldi athvarfa er í helgu borgunum og víðar. Þar fá þær aðstoð, sums staðar aðeins húsaskjól en annars staðar fæði og jafnvel þjónustu prests við bænir eins og á heimilinu sem ég heimsótti með ferðafélögum mínum á dögunum. Sums staðar er yngri ekkjum veitt starfsþjálfun eða menntun og börnum þeirra hjálpað til náms.

Talið er að tugir þúsunda ekkna séu í Varanasi og ef til vill um 12 þúsund á aldrinum 20 til 45 ára. Fjöldi ungra ekkna stafar af ótímabærum dauða karla vegna aðstæðna við vinnu og sjúkdóma en einnig af því að í landinu hafa tíðkast barnagiftingar þar sem ungar stúlkur eru gjarnan giftar mun eldri karlmönnum. Konurnar geta því lifað í marga tugi ára sem ekkjur.

Anuj Singh, forstjóri heimilisins í Varanasi, segir að yngri ekkjurnar komi vissulega á heimilið til að fá mat og húsaskjól í styttri tíma en þær haldi svo á pílagrímasvæðið. Þar sé ekki gott að vera. Þær eldri dvelji á heimilinu til dauðadags.

Hér er gott að vera

„Það eru mest múslimar í Pakistan og ekkert pláss fyrir hindúa. Ég kom hingað þegar eiginmaður minn dó,“ segir Pushpa, öldruð ekkja sem fæddist í Pakistan og bjó þar þangað til eiginmaður hennar dó fyrir 22 árum. „Ég kom hingað til að lifa góðu lífi. Hér er gott að vera,“ segir hún. Pushpa segist engin tengsl hafa við fjölskyldu sína enda enginn lifandi af hennar nánustu ættingjum.

Pushpa segir að lítið annað sé um að vera á heimilinu en að biðjast fyrir. Það geri konurnar allan daginn undir stjórn prests heimilisins.

Pushpa er öldruð ekkja frá Pakistan. Þar var ekki pláss …
Pushpa er öldruð ekkja frá Pakistan. Þar var ekki pláss fyrir hindúatrúað fólk eftir dauða eiginmanns hennar. mbl.is/Helgi Bjarnason

Bhattachapaya sem fyrr er vitnað til segir að heimilið sé góður staður fyrir konur sem hvergi annars staðar fái hjálp. „Kona getur ekki verið ein á götu, sérstaklega ekki á nóttunni. Ég þakka fyrir að vera ekki þar. Konur vilja öruggt skjól, þess vegna er gott að vera hér.“

Varanasi Durga Ashram er kostað með frjálsum framlögum hjálparsamtaka og einstaklinga. Nú er verið að safna fyrir nýju húsi og á þá að vera hægt að hýsa 50 konur. Ljóst er að ekki er vanþörf á.

Klæddar í hvítt

Einkennisklæðnaður ekkna í Indlandi er hvítur sarí, þeim er ekki ætlað að njóta litanna eins og giftum konum, og er gert að neita sér um allar lífsnautnir. Þær máttu lengi vel ekki taka þátt í Holi, árlegri trúarsamkomu hindúa þar sem litagleðin er ríkjandi, eða öðrum hátíðum. Þær þóttu óheillakrákur þar eins og annars staðar.

Hjálparsamtök sem vinna í þágu ekkna hafa síðustu ár staðið fyrir þátttöku þeirra í trúarhátíðinni til að reyna að breyta viðhorfum samfélagsins. Þær fara niður að Ganges-fljótinu, fá yfir sig rauðan lit og dansa eins og frjálsar manneskjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert