32 létust í sjálfsvígsárás

AFP

Að minnsta kosti 32 létust í árás vígamanna Ríkis íslams á flóttamannabúðir í Sýrlandi í dag. Búðirnar eru við landamæri Íraks en fimm vígamenn sprengdu sig upp inni í búðunum og fyrir utan þær.

Íbúar flóttamannabúðanna, sem eru í Hasakeh-héraði, eru frá Írak og Sýrlendingar sem eru á flótta í eigin landi.

Hörð átök hafa geisað í héraðinu á milli herliðs bandalags Kúrda og arabískra hermanna gegn vígasveitum Ríkis íslams.

Að minnsta kosti 21 íbúi í flóttamannabúðunum í Rajm al-Salibeh létust í sjálfsvígsárásinni. 

Íran mun halda áfram stuðningi sínum við stjórnvöld í Sýrlandi þrátt fyrir að hundruð sjálfboða og ráðgjafa hafi dáið í stríðinu í Sýrlandi undanfarin sex ár. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem íranski herinn hefur sent frá sér. 

Rússar, Íranir og liðsmenn Hezbollah í Líbanon eru helstu stuðningsmenn hernaðaraðgerða sýrlenskra yfirvalda í Sýrlandi. Íran mun halda áfram að senda sérfræðinga sína til Sýrlands svo lengi sem þörf er á. 

Í byrjun mars höfðu að minnsta kosti 2.100 íranskir hermenn látist í Írak og Sýrlandi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert