Fjórir dæmdir til dauða fyrir nauðgun

Frá mótmælum árið 2012 þegar konan lést af völdum áverka …
Frá mótmælum árið 2012 þegar konan lést af völdum áverka hópnauðgunarinnar. AFP

Hæstiréttur Indlands staðfesti dauðadóm yfir fjórum karlmönnum sem hópnauðguðu 23 ára konu árið 2012 með þeim afleiðingum að hún lést. Í dómi hæstaréttar kemur fram að unga konan hafi gengið í gegnum ólýsanlegar þjáningar af hálfu mannanna.

Jyoti Singh, 23 ára nema í sjúkraþjálfun, var nauðgað af fimm mönnum og unglingspilt eftir að hún þáði far með þeim þegar hún var á heimleið eftir bíó með vini sínum. Hún lést þrettán dögum síðar af völdum áverka sem hún hlaut við árásina. 

Mennirnir fimm voru dæmdir árið 2013 til dauða fyrir nauðgunina en unglingurinn var dæmdur til vistunar í unglingafangelsi. Einn mannanna, sem er talinn hafa verið höfuðpaurinn, svipti sig lífi í fangelsi fljótlega eftir að dómurinn féll. 

Lög­regla seg­ir að kon­unni hafi verið nauðgað af mönn­un­um í tæpa klukku­stund, auk þess sem bæði hún og vin­ur henn­ar voru bar­in og henni misþyrmt með járn­stöng­um.

„Þetta er sögulegur dómur. Við sendum þau skilaboð til umheimsins að þeir sem brjóta gegn konum, og brjóta gegn þeim með ofbeldi, munu einnig gjalda fyrir það og hljóta strangasta dóm sem til er í landinu,“ sagði mannréttindasinninn Ranjana Kumar.  

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar dómurinn var kveðinn upp. Kynferðisbrot gegn konum í Indlandi eru tíð og eiga þær erfitt með að sækja rétt sinn þegar á þeim er brotið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert