Íbúar neyddir á Maduro-megrunarkúr

Hörð mótmæli hafa verið í landinu síðustu mánuði.
Hörð mótmæli hafa verið í landinu síðustu mánuði. AFP

Venesúela sem var eitt ríkasta land í Rómönsku-Ameríku og hafði mestar tekjur af útflutningi matvæla á í erfiðleikum með að metta þegna sína. Verðbólgan í landinu er mikil og verðlag á matvöru er gríðarlega hátt. Flestar bújarðir eru í einkaeigu og bændur eiga í stökustu vandræðum með að verja mat sinn fyrir sársvöngu fólki sem sem stelur ávöxtum af trjám og annarri uppskeru. The Wall Steet Journal greinir frá. 

Þrír af hverjum fjórum íbúum Venesúela segjast hafa misst nokkur kíló á síðasta ári vegna hungurs. Að meðaltali hafa íbúar misst tæplega níu kíló, samkvæmt árlegri rannsókn á heilsu íbúa landsins. Í kaldhæðni sinni kalla íbúar Venesúela þetta Maduro-megrunarkúrinn eftir forseta landsins, Nicolás Maduro.   

Verðbólga í Venesúela er sú mesta í heimi og talið er að hún muni ná 720% á þessu ári. Það er ógjörningur fyrir fjölskyldur að ná endum saman. Frá árinu 2013 hefur innflutningur á matvöru dregist saman um 70% og efnahagur landsins dregist saman um 27%.  

Fjölmargar barnmargar fjölskyldur leita í örvæntingu sinni að matarleifum í ruslatunnum. Þessi sjón var sjaldgæf í landinu fyrir ári síðan. Innbrot í matvöruverslanir eru algeng og fólk læsir ísskápum sínum með hengilás. 

Leitaði í ruslinu að mat fyrir son sinn

„Ég horfði á hann sofa og sofa og verða sífellt veikari. Allan tímann hélt hann áfram að léttast.“ Þetta segir Maria Planchart, móðir tæplega eins árs drengs, sem vegur innan við fimm kíló. Hún gat ekki annað en farið með drenginn á spítala þar sem hann fær næringu og aðhlynningu. Barnið er ekkert nema skinn og bein og grætur veiklulega. 

„Ég hélt ég myndi aldrei sjá Venesúela í þessari stöðu,“ segir hin 34 ára móðir. Hún gat ekki lengur fætt barnið sitt og var orðin úrkula vonar um að finna nokkurt matarkyns lengur í ruslatunnum sem hún hafði þrætt dögum saman. 

Fjölmargir látist í mótmælum 

Fjölmenn mótmæli hafa verið í Venesúela síðustu mánuði þar sem ríkisstjórn Maduro er harðlega gagnrýnd. Að minnsta kosti 35 almennir borgarar hafa látið lífið.

Blaðamaður The Wall Steet Journal náði ekki í neinn talsmann ríkisstjórnar Venesúela við greinarskrifin sem eru ítarleg.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert