Lofa greindari og ljósari börnum

AFP

Indversku samtökin Garbh Vigyan Sanskar heita nú indverskum foreldrum að aðstoða þau við að eignast „betri“ börn, með hærri greindarvísindatölu og ljósara litarhaft en foreldrar þeirra. Málið hefur vakið mikla gagnrýni.

Að sögn Karishma Mohandas Narwani, framkvæmdastjóra stofnunarinnar, ráðleggur stofnunina væntanlegum foreldrum að gangast undir „hreinsun“ til að tryggja að börnin þeirra fæðist laus við alla lesti.

„Við verðum að tryggja að útsæðið sé gott, sem þýðir að sæðið og eggið verða að vera í hæsta gæðaflokki,“ sagði Narwani í samtali við AFP í dag. „Ef það er gert mun barnið hafa þá andlegu, líkamlegu og trúarlegu eiginleika sem óskað er eftir.“

Að sögn framkvæmdastjórans geta foreldrar eignast „betri“ börn með því að fylgja ráðleggingum samtakanna um t.d. mataræði og jákvæðar hugsanir. „Markmið okkar er að stuðla að betri afkvæmum, fullum af gildum og siðfágun. Leyndarmálin eru öll hér í heilögum textum hindúatrúarinnar.“

Nafn stofnunarinnar þýðir „vísindaleg hreinsun móðurlífsins“ en hún er staðsett í Gujarat, heimaríki forsætisráðherrans Narendra Modi, sem er þjóðernissinnaður hindúi. Narwani neitar því að tengsl séu á milli stofnunarinnar og Rashtriya Swayamsewak Sangh (RSS), áhrifamikilla samtaka hægrisinnaðra hindúa sem eru sögð hugmyndafræðilegur brunnur Bharatiya Janata, stjórnmálahreyfingar Modi.

Ashok Kumar Varshney hjá RSS segir hins vegar aðferðir Garbh Vigyan Sanskar gera foreldrum með lága greindarvísitölu kleift að eignast greindari börn og „dökkum“ foreldrum að eignast „ljósari“ börn.

Samtökin hafa verið gagnrýnd í indverskum fjölmiðlum og m.a. sögð stunda arfbótastefnu á borð við þá sem nasistarnir aðhylltust.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert