Matarboðið markaði upphafið

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, spurði James Comey í þrígang, þegar sá síðarnefndi var enn forstjóri FBI, hvort hann væri persónulega til rannsóknar. New York Times segir að Trump hafi krafið Comey um að sverja sér hollustueið en Comey vikið sér undan því að svara.

Í frétt New York Times kemur fram að aðeins viku eftir að Trump sór embættiseið í janúar hafi Comey tjáð félögum sínum hjá bandarísku alríkislögreglunni að hann væri boðinn í mat í Hvíta húsið og að þeir yrðu aðeins tveir í matarboðinu, hann og Trump.

Comey telur að samtal þeirra þetta kvöld í janúar marki upphafið að því að forsetinn rak hann óvænt úr starfi forstjóra FBI. Þetta hefur NYT eftir tveimur heimildarmönnum sem Comey hefur lýst kvöldverðinum fyrir. 

Við matarborðið ræddu þeir Trump og Comey um kosningarnar og fjölda þeirra sem mættu í mótmæli gegn Trump. Aðeins var um létt spjall að ræða en síðan tók við alvarlegri umræða og Trump spurði Comey hvort hann myndi sverja sér hollustueið. Því neitaði Comey en sagði Trump að hann myndi alltaf vera heiðarlegur gagnvart honum.  

Skrifstofa forseta Bandaríkjanna segir að þetta sé ekki rétt og í viðtali við NBC í gærkvöldi lýsti Trump allt öðruvísi kvöldverðarspjalli þeirra tveggja. Þar hafi aldrei verið rætt um hollustu en ekki er vitað hvort Trump sé að tala um sama kvöldverðarboð og Comey. En heimildir NYT herma að þetta hafi verið þeirra eini kvöldverður þar sem þeir voru tveir saman.

Ákvörðunin alfarið Trumps

Trump sagði í viðtalinu við NBC í gærkvöldi að Rússland hefði verið í huga hans þegar hann tók ákvörðun um að reka James Comey en Comey stýrði rannsókn á mögulegum inngripum Rússa inn í bandarísku kosningabaráttuna.

Að sögn Trumps var ákvörðunin hans um að segja Comey upp: „Þegar ég ákvað að gera það hugsaði ég með sjálfum mér að þetta Rússlandsmál milli Trumps og Rússlands væri skáldskapur,“ sagð Trump í viðtalinu við NBC og talar væntanlega um sjálfan sig í þriðju persónu. 

Í viðtalinu í gærkvöldi sagði Trump frá samskiptum sínum við Comey þar sem hann spurði í þrígang hvort hann væri sjálfur til rannsóknar og hvort Comey myndi ekki láta hann vita ef svo væri. Að sögn Trumps ítrekaði Comey að Trump væri ekki til rannsóknar. 

Eftir viðtalið hafa vaknað spurningar um hvort Trump hafi hegðað sér á óviðeigandi hátt og hvort Comey hafi brotið stjórnvaldsreglur með því að fullvissa Trump um að hann væri ekki til rannsóknar. 

Laurence Tribe lögspekingur segir í samtali við AFP að ef Comey hafi svarað spurningu Trumps þá bryti það gegn reglum dómsmálaráðuneytisins og væri algjörlega óásættanlegt og ófaglegt.

Trump sagði í viðtalinu við NBC að hann og Comey hefðu rætt um möguleikann á að Comey myndi gegna starfi sínu í tíu ár líkt og ráðningarsamningur forstjóra FBI kveður á um.

Tribe er spurður að því hvort þetta gæti jaðrað við mútur eða tilraun til að hindra gang réttvísinnar. Að sögn Tribe væri Comey fífl ef hann hefði fallið fyrir tilboði sem slíku.

Í viðtalinu sagði Trump að hann hefði alltaf ætlað sér að reka Comey en ítrekaði að ákvörðunin hefði verið hans og enginn annar hefði átt þar hlut að máli. Þar hefðu ráðleggingar annarra ekki skipt neinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert