Trump: Bað Comey ekki að hætta rannsókninni

James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, var rekinn úr starfi af …
James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, var rekinn úr starfi af Donald Trump Bandaríkjaforseta í síðustu viku. Minnisblað Comey bendir til þess að Trump hafi áður beðið hann að hætta rannsókn á fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa sínum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hafnar því alfarið að hann hafi reynt að fá James Comey, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, til að til að hætta rannsókn á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa sínum.

New York Times greindi í gær frá tilvist minnisblaðs sem Comey ritaði eftir fund sinn með forsetanum. Er Comey sagður hafa verið svo hneykslaður á beiðni forsetans að hann vildi setja atburðina niður á blað og deila þeim með æðstu yfirmönnum FBI.

„Slíkar samræður áttu sér ekki stað,“ hefur CNN eftir einum embættismanna Hvíta hússins.

Í yfirlýsingu sem forsetaskrifstofan sendi frá sér eftir að grein New York Times birtist, segir að: „Þó að forsetinn hafi ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að Flynn hershöfðingi sé góður maður sem hafi þjónað og varið land okkar, þá hefur forsetinn aldrei beðið Comey eða nokkurn annan um að hætta nokkurri rannsókn, þar með talið rannsókninni á Flynn.“   

Segir í yfirlýsingunni að Trump beri mikla virðingu fyrir löggjöf eftirlitsstofnanna, sem og öllum rannsóknum og fréttin sé ekki sönn eða rétt lýsing á samræðum þeirra Comey.

Í minn­is­blaðinu sem New York Times segir Comey hafa skrifað stuttu eft­ir fund­inn, segir hann forsetann hafa sagt við sig: „Ég vona að þú get­ir látið þetta falla niður.“

Hafa bandarískir fjölmiðlar sagt þetta sýna ljóslega að Trump hafi reynt að hafa bein áhrif á rann­sókn dóms­málaráðuneyt­is­ins og FBI um tengsl­in á milli sam­starfs­manna Trumps og Rúss­lands.

Flynn var vikið úr starfi þjóðaröryggisráðgjafa eftir að upp komst að hann hafði rætt við Rússa um efnahagslegar refsiaðgerðir Bandaríkjamanna, áður en Trump tók við embætti forseta. Enn fremur sagði Flynn ósatt um þau samskipti sín við sendiherra Rússlands, Sergey Kislyak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert