Ökumaðurinn ákærður fyrir morð

Loftmynd frá vettvangi í gær.
Loftmynd frá vettvangi í gær. AFP

Rich­ard Rojas, maður­inn sem ók inn í hóp gang­andi veg­far­enda við Times Square í gær með þeim af­leiðing­um að einn lést og 22 særðust, hefur verið ákærður fyrir morð og 20 tilraunir til manndráps.

Atvikið í New York í gær vakti óhug en hryðjuverk hafa verið framin í London, Berlín, Nice og Stokkhólmi á síðastliðnu ári þar sem bifreið er ekið inn í hóp fólks. Yfirvöld telja ljóst að atvikið í gær hafi ekki verið af þeim toga.

18 ára kona lést og 22 slösuðust. Ein hinna slösuðu er 13 ára systir þeirrar sem lést en hún er í lífshættu á spítala.

„Það sem við vitum núna rennir stoðum undir það að ekki hafi verið um hryðjuverk að ræða,“ sagði Bill de Blasio, borgarstjóri New York, í útvarpsviðtali í dag.

Rojas hafði glímt við andleg veikindi síðan hann var barn. Borgarstjórinn bendir á að hann hafi ekki fengið viðeigandi meðferð við veikindum sínum svo árum skipti.

Talið er að Rojas hafi verið í maríjú­ana­vímu er hann ók á fólkið. „Við erum ekki komin með niðurstöðu hvort einhver efni í líkama hans hafi haft neikvæð áhrif á hegðunina,“ sagði borgarstjórinn.

De Blasio bætti við að yfirvöld myndu skoða gaumgæfilega hvort þau þyrftu að bæta öryggisgæslu til að koma í veg fyrir svipuð atvik.

Skömmu fyrir hádegi að staðartíma í gær keyrði Rojas bíl sínum upp á gangstétt á fullri ferð þar sem hann keyrði á gangandi vegfarendur. Rojas var handtekinn fyrir ölvunarakstur árið 2008 og 2015 og var fyrr í þess­um mánuði hand­tek­inn fyr­ir að ógna manni með hnífi.

„Þið hefðuð átt að skjóta mig! Ég vildi drepa þau,“ á Rojas að hafa sagt við lögreglu þegar hann var handtekinn á vettvangi í gær. Hann bætti því við að hann hefði heyrt raddir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert