Elskaði að ferðast og hlæja

Alyssu hefur verið minnst á Times Square.
Alyssu hefur verið minnst á Times Square. AFP

Faðir unglingsstúlku sem lét lífið þegar maður keyrði inn í hóp fólks á Times Square í New York á fimmtudaginn segir að dóttir sín hafi elskað að ferðast og hlæja. Hún hét Alyssa Elsman og var frá Michigan-ríki.

„Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei getað ímyndað mér,“ sagði Thomas Elsman í samtali við fréttastöðina CBS í gær. „Dóttir mín kom hingað í frí og núna fer ég með hana heim og þarf að jarða hana.“

Önnur dóttir Elsman særðist í árásinni en hún er 13 ára og á batavegi.

Systurnar voru á Times Square þegar Richard Rojas ók inn í mannfjöldann. Alyssa er sú eina sem er látin en 22 særðust. Rojas, sem er fyrrverandi hermaður, sagði lögreglu að hann hafi verið undir áhrifum ofskynjunarlyfsins PCP þegar hann ók á fólkið og sagðist hafa viljað drepa alla sem urðu á vegi hans.

Elsman sagðist þakklátur fyrir alla ástina og samhuginn sem hann og fjölskylda hans hafa fengið í New York. Staðurinn þar sem Rojas ók á fólkið er nú orðinn minningarstaður um Alyssu. Af þeim sem særðust eru sex enn á sjúkrahúsi, þar af tveir alvarlega særðir.

Rojas hefur m.a. verið ákærður fyrir morð og 20 tilraunir til morðs.

Bifreiðin sem ekið var á fólkið.
Bifreiðin sem ekið var á fólkið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert