Kraminn til bana af fíl

Afrískur fíll í Amboseli-þjóðgarðinum í Kenýa.
Afrískur fíll í Amboseli-þjóðgarðinum í Kenýa. AFP

Fíll, sem særður var af byssukúlu, kramdi veiðimann til bana í Zimbabwe á föstudag. Fjallað er um málið í suður-afrískum fjölmiðlum og greinir vefsíðan Netwerk24 frá því að hjörð af fílskúm hafi hlaupið til móts við hóp veiðimanna, sem Theunis Botha fór fyrir.

Búið var að skjóta fílskúna er hún greip utan um Botha með rana sínum og féll að því loknu niður og drapst og kramdi við það Botha, sem hafði verið á ferð með hópi veiðimanna í nágrenni Hwange-þjóðgarðsins að því er BBC greinir frá.

Hwange-þjóðgarðurinn komst m.a. í fréttirnar þegar bandarískur veiðimaður drap þar ljónið Cecil og vakti við það mikla reiði víða um heim.

Samkvæmt vefsíðu Botha tók hann að bjóða upp á veiðiferðir á einkajörðum árið 1989, en hann gegndi áður herþjónustu í suður-afríska hernum. Á síðunni segir að hann hafi sérhæft sig í veiðum á ljónum og hlébörðum og að hundar væru notaðir við veiðarnar. Þá stæði veiðimönnum einnig til boða að veiða gíraffa, buffalóa og fíla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert