Þorskasöngur norska seðlabankans vinsæll

Grínistarnir Knut Lystad, Lars Mjøen og Jon Niklas Rønning syngja …
Grínistarnir Knut Lystad, Lars Mjøen og Jon Niklas Rønning syngja um þorskinn. Skjáskot/YouTube

Norska krónan er að breyta um útlit þessa dagana, að minnsta kosti seðlarnir, og í fyrsta skipti í norskri sögu verða það ekki sögufrægir Norðmenn sem munu prýða seðlana heldur sjávarsaga landsins.

Nýju seðlarnir tóku að streyma í banka klukkan tvö í dag, en líklega munu nokkrir dagar líða þar til almenningur fer að verða var við seðlana.  

Seðlabanki Noregs hefur gefið út myndband með nýju seðlunum með nýrri útgáfu af KLM-slagaranum Þorskurinn kemur [n. Torsken kommer] í flutningi grínaranna Knut Lystad, Lars Mjøen og Jon Niklas Rønning sem syngja „Þorskurinn er vinur vor og nú er hann allt í einu 200 króna virði!“


 

Norska ríkisútvarpið NRK segir myndbandið hafa vakið athygli víða um heim og hafi breska dagblaðið Financial Times meira að segja tekið sig til og þýtt textann á ensku.

Nýju seðlarnir eru þó ekki bara sérstakir fyrir þær sakir að myndefnið sé annað en áður, heldur eiga þeir að vera öruggari og tæknin við gerð þeirra á að gera fölsurum erfiðara um vik að útbúa falska seðla.

Nýi 50 króna seðillinn verður skreyttur mynd af vita, 100 kr. seðillinn er skreyttur víkingaskipi, 200 kr. seðillinn er með áðurnefndum þorski og 500 kr. seðilinn prýðir björgunarskútan Stavanger.

Verslanir munu taka áfram við gömlu seðlunum næsta árið, en eftir það verður hægt að skipta þeim út hjá Seðlabanka Noregs næsta áratuginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert