Fjölskyldur árásarmanna fá ekki bætur

Rex Tillerson á fundinum í dag.
Rex Tillerson á fundinum í dag. AFP

Leiðtogar Palestínu hafa samþykkt að stöðva greiðslur til fjölskyldna sjálfsmorðssprengjumanna. Þetta sagði Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Deilt hefur verið um bætur til fjölskyldna „píslarvotta“, sem láta lífið þegar þeir fremja árásir gegn Ísraelum, í friðarviðræðum í Mið-Austurlöndum.

„Þeir hafa breytt stefnu sinni, að minnsta kosti hef ég verið látinn vita af því að þeir hafa breytt þessari stefnu,“ sagði Tillerson á fundi með bandarísku öldungadeildinni.  

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heitið því að endurvekja friðarviðræður fyrir botni Miðjarðarhafs og hefur hvatt Ísraela til að takmarka byggð sína á landi Palestínumanna.

Mahmud Abbas, leiðtogi Palestínu.
Mahmud Abbas, leiðtogi Palestínu. AFP

Tillerson sagði að bandarísk stjórnvöld hefðu sett þrýsting á Mahmud Abbas, leiðtoga Palestínu, vegna greiðslnanna til fjölskyldna sjálfsmorðssprengjumanna.

„Þetta var rætt við Abbas forseta þegar hann kom hingað til Washington,“ sagði Tillerson og bætti við að Trump hafi rætt þetta við hann í Hvíta húsinu.

Eftir þann fundi átti Tillerson annan fund með Abbas. „Ég sagði við hann að hann yrði að hætta þessum greiðslum til fjölskyldna „píslarvottanna“,“ sagði Tillerson.

„Ég sagði að það væri í lagi að hjálpa munaðarleysingjum og börnum en þegar þú borgar fyrir svona verknað þá verðurðu að hætta því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert