Afburðasnjall og hjartahlýr

Otto Warmbier í hópi ferðamanna í Norður-Kóreu. Gleðin er við …
Otto Warmbier í hópi ferðamanna í Norður-Kóreu. Gleðin er við völd. Nokkrum dögum síðar var hann handtekinn. Skjáskot/Youtube

Allir í hópnum skælbrosa. Otto Warmbier, líkt og hinir ferðamennirnir, hendir snjóbolta í átt að myndavélinni. Hópurinn er staddur í Norður-Kóreu og virðist skemmta sér vel. „Þetta er sá Otto sem ég þekki og elska. Þetta er bróðir minn,“ skrifaði Austin Wambier er hann birti myndskeiðið á samfélagsmiðlum. Myndbandið er tekið á þriggja daga ferðalagi fólksins í Norður-Kóreu í lok ársins 2015. Tveimur mánuðum síðar birtist Otto á öðru myndskeiði, við allt aðrar aðstæður.

Þá var ekkert bros á andlitinu. Hakan var niður í bringu. Hann grét er hann var látinn „játa“ opinberlega að hafa stolið skilti af hóteli. Þannig hafi hann brugðist norðurkóresku þjóðinni. Otto Warmbier hafði verið handtekinn við lok ferðar sinnar um landið og dæmdur til vinnuþrælkunar. Hann var þá 21 árs bandarískur háskólanemi.


Sautján mánuðum síðar var hann fluttur aftur heim til Ohio í dái. Hann hafði hlotið miklar heilaskemmdir. Í gær tilkynnti fjölskyldan að hann væri látinn.

Enn er ekki vitað hver aðbúnaður Ottos var í fangelsinu í Norður-Kóreu. Stjórnvöld þar sögðu að hann hefði fengið bótúlíneitrun skömmu eftir að hann var hnepptur í varðhald. Um sjaldgæfan sjúkdóm sem veldur lömun er að ræða. Norður-Kóreumenn sögðu að Otto hefði verið gefið svefnlyf sem olli því að hann féll í dá.

„Á tímum sem þessum væri auðvelt að einbeita sér að því sem við höfum misst, framtíð sem við munum ekki eyða með hlýjum, áhugasömum og afburðasnjöllum ungum manni. Ástríðu hans fyrir lífinu voru engin takmörk sett. En við veljum að einbeita okkur að þeim tíma sem við fengum með þessari einstöku manneskju,“ sagði fjölskylda Ottos í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér vegna fráfalls hans.

Fred Warmbier, faðir Ottos, klæddist jakka sonar síns á blaðamannafundi …
Fred Warmbier, faðir Ottos, klæddist jakka sonar síns á blaðamannafundi eftir komu hans til Bandaríkjanna. Þá var ljóst að Otto væri í dái og alvarlega skaðaður. AFP

Ungi maðurinn sem lenti í Cincinnati í síðustu viku var ekki sá sami og yfirgaf Bandaríkin fyrir einu og hálfu ári til að heimsækja Norður-Kóreu. Hann gat hvorki tjáð sig né hreyft. Læknarnir sem meðhöndluðu hann sögðu hann hafa hlotið alvarlegar heilaskemmdir meðan á dvöl hans í Norður-Kóreu stóð.

Læknarnir sögðust ennfremur ekki sjá nein merki um bótúlíneitrun líkt og haldið hafði verið fram.

Áður en Otto Warmbier komst í heimsfréttirnar fyrir að hafa verið fangelsaður í Norður-Kóreu var hann venjulegur háskólanemi sem þyrsti í að kynnast heiminum og fjarlægum slóðum.

Otto var fæddur í Cincinnati. Foreldrar hans heita Cindy og Fred Warmbier. Hann var framúrskarandi námsmaður sem hlaut skólastyrk til náms í Háskólanum í Virginiu. Þar lærði hann viðskipta- og hagfræði og var meðlimur í Theta Chi-bræðralaginu.

Warmbier var mjög skipulagður. Hann setti fjölskyldu sína og nám alltaf í forgang. Félagslífið var ekki í fyrsta sæti.

„Ef námsbækurnar kölluðu, starfið eða fjölskyldan þá var ekkert sem hægt var að segja við hann til að sannfæra hann um að gera eitthvað annað,“ segir vinur hans, Ned Ende, í samtali við Washington Post.

En í stað þess að útskrifast úr háskóla í maí, líkt og skólasystkini hans, var hann í fangelsi í Norður-Kóreu.

Fimm daga ferðlag varð að sautján mánuðum

Vorið 2016 skráði Warmbier sig í ferð til Norður-Kóreu með ferðaskrifstofunni Young Pioneer Tours  sem sérhæfir sig í ferðum til framandi staða sem fáir vilja fara til eða komast á.

„Otto var frábær strákur,“ segir Danny Gratton sem einnig fór í ferðina til Norður-Kóreu. „Ég kynntist honum vel. Hann var þroskaður miðað við aldur.“

Á myndum og myndskeiðum sem tekin voru upp á ferðalaginu má sjá að Warmbier naut sín.

Til stóð að ferðast um Norður-Kóreu í fimm daga. Warmbier ætlaði í kjölfarið að fara til Peking og ferðast um Kína. En þegar hann kom á flugvöllinn í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, var hann stöðvaður af öryggisvörðum.

Samkvæmt því sem stjórnvöld í landinu segja var hann  handtekinn því hann hafði farið inn á hæð á hótelinu sínu sem bannað var að fara um. Þaðan var hann sagður hafa stolið skilti eða veggspjaldi með pólitískum boðskap.

Síðan spurðist ekkert til hans vikum saman. Næst þegar umheimurinn frétti af honum var þegar hann flutti „játningu“ um glæpinn í sjónvarpi. Það var í febrúar í fyrra. Í ávarpinu grátbað hann um fyrirgefningu og að sér yrði sleppt úr haldi. Talið er líklegt að hann hafi verið þvingaður til að játa brotið, slíkt hefur áður hent útlendinga sem handteknir eru í Norður-Kóreu.

Fyrir hið meinta brot var Warmbier dæmdur í fimmtán ára þrælkunarvinnu. Þegar upp var staðið eyddi hann sautján mánuðum í fangelsi í landinu. Honum var sleppt í síðustu viku og fluttur heim til Bandaríkjanna.

Þegar varð ljóst að ástand hans var alvarlegt og heilaskemmdir miklar.

Enn hefur ekki verið upplýst hvers vegna hann var látinn laus á þessum tíma.

Fjölskyldan sagði í yfirlýsingu sinni í gær að Otto hefði loks komið heim og hefði nú fundið frið. „Því miður varð reyndin sú að vegna hinnar hræðilegu meðferðar sem sonur okkar fékk af hálfu Norður-Kóreumanna þá urðu þessi sorglegu örlög hans óumflýjanleg.“

Greinin er byggð á fréttum BBC, CNN og Washington Post.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert