„Fjandinn, það eru krakkar þarna inni“

Slökkviliðsmenn leita enn að líkum í Grenfell-turninum. Lögreglan rannsakar eldsupptök.
Slökkviliðsmenn leita enn að líkum í Grenfell-turninum. Lögreglan rannsakar eldsupptök. AFP

„Hvernig í andskotanum eigum við að komast að þessu?“ má heyra slökkviliðsmann á leið að Grenfell-turninum í London í síðustu viku segja við kollega sína. Slökkviliðsmennirnir voru greinilega skelfingu lostnir er þeir sáu hversu mikill eldsvoðinn var.

Sky-fréttastöðin hefur birt myndskeið sem sýnir þessi fyrstu viðbrögð slökkviliðsmannanna sem eru á leið á vettvang. „Fjandinn, það eru krakkar þarna inni,“ má heyra einn þeirra segja er slökkvibíllinn nálgast logandi turninn. Þeir velta fyrir sér hvort um nýbyggingu sé að ræða eða hvort húsið sé eldra. Þegar þeir sjá hversu hratt eldurinn breiðist út til efri hæða turnsins segir einn þeirra: „Hvernig er þetta mögulegt?“

79 eru taldir af eftir eldsvoðann. Enn á eftir að finna lík í húsinu og bera kennsl á mörg þeirra. Fjórtán eru enn á sjúkrahúsi, þar af átta alvarlega slasaðir.

Yfirlæknir á King College-sjúkrahúsinu segir að sumir sjúklinganna hafi flúið ofan af 20. hæð hússins. Þeir hafi fikrað sig niður með stigahandriðunum. „Það er ljóst að það mun taka suma marga mánuði að jafna sig af meiðslum sínum. Það mun taka lengri tíma þá að jafna sig andlega,“ segir læknirinn í samtali við Sky.

Tugir íbúa turnsins misstu heimili sín í eldsvoðanum. Margir þeirra hafast nú við á hótelum. Gagnrýnt hefur verið að aðstoð sem borgaryfirvöld hafi heitið hafi ekki skilað sér til allra. Einhverjir íbúanna hafist því við í bílum sínum og viti ekki hvert þeir eigi að snúa sér. 

Sakamálarannsókn á eldsvoðanum er hafin. Um 250 lögreglumenn vinna að henni, að því er segir í frétt Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert