Tvö þúsund flóttamenn drukknað

Bátur siglir í höfn í Líbýu með fjölda flóttamanna sem …
Bátur siglir í höfn í Líbýu með fjölda flóttamanna sem líbýska strandgæslan bjargaði í Miðjarðarhafi. AFP

Talið er að tæplega tvö þúsund flóttamenn hafi drukknað á leið sinni yfir Miðjarðarhafið á þessu ári. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna greinir frá þessu en í dag er Alþjóðlegi flóttamannadagurinn.

„Þetta er ein af hættulegustu leiðunum sem hægt er að fara í heiminum – ferðalag sem enginn lítur á sem léttvægt,“ sagði flóttamannastofnunin.

Tæplega 130 manns drukknuðu undan ströndum Líbýu í Norður-Afríku í gær. Einnig er talið að tugir fjölskyldna hafi drukknað í öðru slysi eftir að báturinn þeirra fór í sundur og sökk, einnig undan ströndum Líbýu.

„Samkvæmt vitnum brotnaði bátur með að minnsta kosti 85 manns í tvennt og sökk skömmu eftir að hafa lagt af stað frá Sabratha,“ sagði talsmaðurinn Federico Fossi.

AFP

Þrír viðarbátar höfðu lagt af stað á sama tíma um morguninn, þar á meðal báturinn sem brotnaði í tvennt. Fólki á öðrum bát var bjargað og það flutt til Ítalíu og líbýska strandgæslan kom auga á þriðja bátinn og dró hann í land.

Að sögn Cecile Pouill hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa yfir 77 þúsund manns reynt að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu á þessu ári.

„Þrátt fyrir hetjulega tilburði marga sem hafa stundað björgunarstörf í sjónum heldur tala látinna áfram að hækka. Næstum tvö þúsund eru taldir hafa látist eða er saknað frá byrjun ársins,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert