Rannsakað sem hryðjuverk

Lögreglan í Montreal hefur lokað af svæðinu í kringum heimili …
Lögreglan í Montreal hefur lokað af svæðinu í kringum heimili árásarmannsins. AFP

Árás á lögreglumann á flugvellinum í borginni Flint í Michigan er rannsökuð sem hryðjuverk en árásarmaðurinn kallaði Allahu Akbar sem þýðir Guð er mikill á arabísku áður en hann stakk lögreglumanninn með hníf.

Bandaríska alríkislögreglan hefur upplýst hver árásarmaðurinn er en hann heitir Amor Ftouhi, 49 ára gamall Kanadamaður frá Quebec. Hann er í haldi lögreglunnar og er samvinnuþýður að sögn lögreglu.

Á fréttamannafundi sagði David Gelios, yfirmaður hjá FBI, að atvikið sé rannsakað sem hryðjuverk og byggir FBI það á gögnum úr öryggismyndavélum á flugvellinum. 

Ftouhi sést ráfa um með farangur sinn langtímum saman á opnum svæðum flugvallarins, svo sem veitingastöðum og salernum, áður en hann dró upp 30 cm langan skörðóttan hníf og kallaði Allahu Akbar. Síðan stakk hann lögreglumanninn í hálsinn um leið og hann vísaði til Sýrlands, Írak og Afganistan. Hann hefur jafnframt lýst yfir andúð á Bandaríkjunum við yfirheyrslur. Ftouhi hefur hins vegar reynst samvinnuþýður og sagt lögreglu allt af létta um ástæður árásarinnar.

Lögreglumaðurinn sem varð fyrir árásinni heitir Jeff Neville og hefur starfað sem flugvallarlögregla í sextán ár. Neville hafði Ftouhi undir og hélt honum niðri þangað til Ftouhi var handjárnaður af öðrum lögreglumönnum. Neville var fluttur á sjúkrahús og er líðan hans eftir atvikum, samkvæmt tilkynningu lögreglu.

Ftouhi kom með löglegum hætti til Bandaríkjanna 16. júní en verið er að rannsaka heimili hans í Montreal. Þrír íbúar hússins hafa verið handteknir og er verið að yfirheyra þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert