153 létust í eldsvoðanum

Sorg ríkir í Pakistan en 153 létust skammt fyrir utan borgina Bahawalpur í gær þegar olíubíll með 40 þúsund tonn af eldsneyti valt. Sprenging varð í bílnum í kjölfar veltunnar. Fólkið hafði komið til þess að freista þess að verða sér úti um eldsneyti, en mikil fátækt ríkir á þessum slóðum. 

Tugir ættingja bíða fyrir utan sjúkrahúsin í Bahawalpur til þess að sækja lík ástvina sem fórust í eldsvoðanum. Forsætisráðherra Pakistan, Nawaz Sharif, er kominn til borgarinnar þar sem hann heilsar upp á aðstandendur þeirra sem létust.

Ekki er vitað hvað olli því að bíllinn valt en talið er að um hraðakstur hafi verið að ræða og að dekk bílsins hafi sprungið. Ökumaðurinn hefur verið færður í gæsluvarðhald og bíða hans nú yfirheyrslur svo hægt sé að finna út hvað gerðist. Fjölmargir slösuðust og eru margir þeirra í lífshættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert