Bleyjan full af blóði

Konunni brá þegar hún tók bleyjuna af syni sínum.
Konunni brá þegar hún tók bleyjuna af syni sínum. Mynd/Wikipedia

Móðir hefur lýst þjáningunni þegar hún komst að því að sonur hennar hafði verið umskorinn án þess að leitað væri samþykkis fyrir aðgerðinni hjá henni.

Konan, sem er frá Nottingham í Englandi, sagði að hún hefði opnað bleyju sonarins og þá hafi blasað við henni að bleyjan var full af blóði. Henni varð svo illa brugðið að hún yfirgaf herbergið.

Hún hefur barist fyrir því í fjögur ár að yfirvöld bregðist við vegna málsins. 

Þrír hafa verið handteknir vegna málsins, þar á meðal 61 árs gamall karlmaður sem er talinn vera læknir. Fólkið hefur verið handsamað vegna gruns um að hafa meitt barnið visvítandi.

„Ég opnaði bleyjuna og varð að yfirgefa herbergið vegna þess að ég sturlaðist,“ sagði móðirin við BBC en hún vildi ekki láta nafns síns getið. „Það var fullt af blóði þarna.“

Strákurinn var umskorinn í júlí fyrir fjórum árum en þá var hann þriggja mánaða gamall. Þegar hann var umskorinn dvaldi hann hjá ömmu sinni og afa, sem eru múslimar. 

Móðir hans hafði samband við félagsþjónustu áður en hún hafði samband við lögreglu í lok árs 2014. 

Amman og afinn handtekin

Lögreglan hugðist ekki gera neitt í málinu og taldi það ekki sakamál. Móðirin fékk mannréttindalögfræðing með sér í lið og í kjölfarið á því að hann sendi lögreglunni bréf voru þremenningarnir handteknir 21. júní síðastliðinn.

Talið er að fólkið sem var handtekið, fyrir utan lækninn, séu amma og afi stráksins. Þau eru handtekin vegna gruns um að hafa ætlað að valda miklum skaða.

Móðirin segir að sonur hennar hafi fengið margar sýkingar síðan hann var umskorinn. Typpið verði oft bólgið og aumt. 

Umskorinn hálfa leið

„Það lítur eins og hann hafi verið umskorinn hálfa leið, það er eina leiðin til að útskýra þetta,“ segir móðirin. Hún hefur fengið krem til að bera á son sinn og hefur verið sagt að hann gæti þurft að fara í frekari aðgerð þegar hann verður eldri.

Henni þykir fólk ekki sýna henni og syninum næga samúð vegna málsins. „Lögregluþjónar hafa jafnvel sagt hluti eins og „eiginmaðurinn er umskorinn, ég held að það sé betra,“ eða „þeir eru sterkari en þeir líta út fyrir og þetta herðir hann.“ Svona ummæli særa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert