Handtaka Dana í aðdaganda gleðigöngu

Í dag fer fram heilmikil gleðiganga hinsegin fólks í Madríd.
Í dag fer fram heilmikil gleðiganga hinsegin fólks í Madríd. AFP

Yfirvöld á Spáni hafa handtekið Dana sem grunaður er um að hafa barist með vígamönnum Ríkis íslam í Sýrlandi. Mikill viðbúnaður er á Spáni í dag vegna WorldPride-göngunnar sem fer fram í Madríd. Gert er ráð fyrir að allt að tvær milljónir manna taki þátt í gleðinni.

Hinn 29 ára Dani, fæddur í Sýrlandi, var handtekinn í Malaga á föstudag. Hann er grunaður um að hafa barist með Ríki íslam í að minnsta kosti tvö ár, samkvæmt spænska innanríkisráðuneytinu.

Farangur mannsins er nú til rannsóknar en yfirvöldum liggur á að komast að því á hvaða ferðalagi hann var og við hverja hann hefur verið í sambandi við.

Þrír Marokkómenn voru handteknir í Madríd í júní, þar af einn sem er grunaður um að tilheyra Ríki íslam. Hvergi var minnst á WorldPride í gögnunum sem lögregla lagði hald á í kjölfar handtakanna.

German Castineira, lögreglustjórinn í Madríd, segir enga ákveðna ógn liggja fyrir heldur séu yfirvöld á tánum almennt.

Viðbúnaðarstigið á Spáni stendur í fjórum af fimm en borgin hefur lánsamlega farið varhluta af hryðjuverkaárásum á borð við þær sem hafa verið framdar í París, Lundúnum, Brussel og Berlín síðustu ár.

Árið 2004 lést hins vegar 191 eftir að sprengjur sprungu í lestum í borginni. Vígamenn með tengsl við Al-Kaída lýstu árásinni á hendur sér.

Cibeles-gosbrunnurinn ljómaður í fánalitunum.
Cibeles-gosbrunnurinn ljómaður í fánalitunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert