Katarar óttast ekki afleiðingarnar

Sheikh Mohammed bin Abdulrahman Al Thani, utanríkisráðherra Katar.
Sheikh Mohammed bin Abdulrahman Al Thani, utanríkisráðherra Katar. AFP

Utanríkisráðherra Katars, sjeikinn Mohammed bin Abdulrahman Al Thani, segist ekki óttast hernaðaraðgerðir gegn landinu en hann segir að katörsk yfirvöld muni ekki hlíta þeim afarkostum sem nágrannaríki þeirra settu þeim. Katar fékk frest til morgundagsins til þess að uppfylla þrettán skilyrði og að sögn ráðherrans verður það ekki gert.

Al Thani er staddur í Róm þar sem hann ræddi aðgerðir Sádi-Arabíu, Egyptalands, Bareins og Sameinuðu arabísku furstadæmanna gegn Katar en löndin slitu diplómatísk tengsl við Katar í síðasta mánuði og settu viðskiptaþvinganir á landið.

Ráðherrann sagði að öllum löndum væri frjálst að gagnrýna og kvarta yfir Katar svo lengi sem þau hefðu sannanir en þannig deilur ætti að leysa með viðræðum en ekki afarkostum.

„Við lítum svo á að heiminum sé stjórnað með alþjóðlegum lögum, sem leyfa ekki stórum löndum að kúga lítil lönd,“ sagði hann á blaðamannafundi. „Enginn hefur rétt til þess að setja fullvalda ríki afarkosti.“

Í síðasta mánuði afhentu löndin fjögur stjórnvöldum í Katar lista yfir kröf­ur í þrett­án liðum sem fara verði að eigi að aflétta viðskiptaþving­un­um sem þau settu ný­verið á landið. Stjórn­völd land­anna fjög­urra saka Kat­ara um að styðja við bakið á hryðju­verka­sam­tök­um.

Meðal krafna sem fram koma, sam­kvæmt fjöl­miðlum, eru:

- Að loka Al-Jazeera al­farið.

- Að fresta bygg­ingu tyrk­neskr­ar her­stöðvar í Kat­ar.

- Að draga úr tengsl­um við Írana.

- Að stjórn­völd í Kat­ar hætti að skipta sér af mál­um land­anna fjög­urra.

- Að hætt verði að veita borg­ur­um land­anna fjög­urra rík­is­borg­ara­rétt í Kat­ar.

Á blaðamannafundinum í Róm sagði Al Thani að yfirvöld í Katar óttuðust ekki afleiðingarnar af því að fara ekki eftir kröfum landanna. „Katar er tilbúið að horfast í augu við afleiðingarnar,“ sagði Al Thani en ítrekaði mikilvægi alþjóðalaga í þessu samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert