Dróni lokaði flugbrautum

AFP

Loka þurfti flugbrautum á Gatwick-flugvelli við London tímabundið í gær vegna dróna sem var flogið  of nálægt flugvellinum. Samkvæmt frétt BBC þurfti að beina fimm flugvélum annað vegna atviksins.

Að sögn flugvallarstarfsmanns þurfti að loka flugbrautum í tvígang vegna dróna, í níu mínútur og síðan í fimm mínútur.

Easyjet þurfti að beina fjórum flugvélum félagsins annað og British Airways sendi eina flugvél til lendingar í Bournemouth. Aðrar flugvélar sveimuðu yfir vellinum á meðan lokað var.

Að sögn Craig Jenkins, sem var farþegi um borð í áætlunarflugi Easyjet sem var að koma frá Napólí á Ítalíu, voru þau að fljúga yfir Ermarsundið þegar flugstjórinn fór að fljúga vélinni í hringi. Eftir fjóra eða fimm hringi var flogið í austurátt og vélinni lent á Stansted. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert