„Hafnarstjórinn“ dró barn ofan í sjóinn

Svanir eru friðaðir í Noregið og því réttarfarslegt álitaefni hvort …
Svanir eru friðaðir í Noregið og því réttarfarslegt álitaefni hvort aflífa megi Hafnarstjórann. AFP

Í dag verður kveðinn upp úrskurður um það hvort Hafnarstjórinn í norska bænum Os í Hordaland-fylki verði tekinn af lífi. Reyndar er þar þó ekki um að ræða hinn eiginlega stjórnanda hafnarinnar heldur svan nokkurn, sem haldið hefur til í og við höfnina í rúm fimm ár og fengið með tímanum nafnið Hafnarstjórinn eða „Havnesjefen“ á norsku.

Upp á síðkastið hefur þó verulega tekið að halla undan fæti hjá Hafnarstjóranum og eftir alvarlegt atvik sl. föstudag er hreinlega talið að stjórinn gangi ekki heill til skógar.

Faðir var þá að baða sig í sjónum með tveggja ára gamalli dóttur sinni, en Norðmenn hafa notið mikils blíðviðris undanfarna daga. Hafnarstjórinn brást hins vegar ókvæða við þessum gestum, öslaði að barninu, beit kirfilega í það og dró það undir yfirborðið. Faðirinn stökk til og bjargaði barninu frá hinum fiðraða Hafnarstjóra. Sundspretturinn varð ekki lengri þann daginn en stúlkan er marin á baki og öxl eftir árásina.

Hafnarstjórinn er ekki ókunnur kastljósi norskra fjölmiðla, árið 2012 risu nokkrar deilur í Os þegar dýrið fékk blýeitrun og var sent til dýralæknis á kostnað sveitarfélagsins. Þá hefur Hafnarstjórinn margoft orðið fyrir bátum sem leið eiga um höfnina og í raun ótrúlegt að hann sé enn á lífi.

Út yfir öll mörk

„Nú er svo komið að Hafnarstjórinn hefur farið endanlega yfir línu hins forsvaranlega,“ segir Nils-Petter Borge, upplýsingafulltrúi bæjarins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Hann segir fjölda fólks hafa haft samband upp á síðkastið og látið vita af ógnandi háttsemi og ögrandi tilburðum Hafnarstjórans. Nú sé hins vegar nóg komið jafnvel þó að stjórinn sé bara að verja það sem hann telur sitt yfirráðasvæði.

Laila Reiersen, settur bæjarstjóri í fjarveru bæjarstjórans Terje Søviknes, hefur einnig tjáð sig um Hafnarstjórann og segir það alveg ljóst að þessi síðasti atburður taki út yfir allan þjófabálk og ekki megi við það búa að stjórinn sé orðinn hættulegur gestum og gangandi og ráðist á börn.

Sveitarfélagið íhugar því sterklega að binda endi á líf hins sérlundaða Hafnarstjóra, slík ákvörðun er þó einnig réttarfarslegt álitaefni þar sem svanir eru friðaðir í Noregi. Ekki hefur áður komið til þess svo vitað sé að yfirvöld hafi þurft að kveða upp dauðadóm yfir svani vegna hegðunar hans, þótt særðum svönum hafi áður verið lógað eftir slys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert